Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar tróna á toppnum eftir sigur á Fjölni
Laugardagur 13. september 2008 kl. 20:26

Keflvíkingar tróna á toppnum eftir sigur á Fjölni

Keflvíkingar eru enn með fimm stiga forskot í Landsbankadeild karla eftir leiki dagsins í dag. Keflavík gerði góða ferð í Grafarvoginn og hafði 1-2 sigur á Fjölni. Veðrið setti svip sinn á leikinn, mikil rigning og rok var í Grafarvoginum í dag eins og svo víða í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Keflvíkingar byrjuðu leikinn betur og voru líklegri til að skora á upphafsmínútum leiksins. Patrik Redo var nálægt því að koma Keflvíkingum yfir þegar hann komst einn í gegnum vörn Fjölnis eftir mistök heimamanna. Á 36. mínútu dróg til tíðinda. Gunnar Már Guðmundsson kom heimamönnum yfir með skoti í teignum eftir misheppnað úthlaup hjá Ómari Jóhannssyni í marki Keflavíkur. Markið kom gegn gangi leiksins, en Keflvíkingar höfðu fram að þessu verið mun sterkari aðilinn í leiknum.


Keflvíkingar virtust eflast við mótlætið og fengu gott færi skömmu síðar. Þórður Ingason í marki Fjölnis varði glæsilega skot Keflvíkinga í tvígang en hann kom hins vegar engum vörnum við þegar Guðmundur Steinarsson skoraði sitt 16. mark í sumar á 41. mínútu. Staðan í hálfleik var 1-1.


Jóhann Birnir Guðmundsson skoraði sigurmark Keflvíkinga á 66. mínútu. Boltinn barst til hans vinstra megin í teginum og honum brást ekki bogalistinn og kom Keflvíkingum yfir. Við markið bökkuðu Keflvíkingar full mikið tilbaka og gáfu Fjölni tækifæri á að sækja. Fjölnir sótti mikið undir lok leiksins og hefði með smá heppni getað jafnað leikinn. Gestirnir úr Keflavík voru hins vegar með sannkallað meistaraheppni á herðum sér í kvöld og náðu að innbyrða öll þrjú stigin.


Keflvíkingar eru með 43 stig á toppi deildarinnar eftir 19 umferðir og hafa fimm stiga forskot á FH sem er í öðru sæti. FH á hins vegar einn leik inni og geta minnkað forskot Keflvíkinga niður í tvö stig.


Næsti leikur liðsins er gegn Breiðabliki á Sparisjóðasvellinum í Keflavík á miðvikudaginn og hefst leikurinn kl. 17:15.


VF-MYND/Hilmar Bragi: Keflvíkingar höfðu ástæðu til að gleðast eftir sigurinn gegn Fjölni í dag
.