Keflvíkingar töpuðu óvænt gegn Fjölni
Fjölniskonur sendu spámönnum langt nef í kvöld þegar þær lögðu ríkjandi Íslands- og bikarmeistara Keflavíkur 79-72. Britney Jones, Birna Eiríksdóttir og Katina Mandylaris fóru fyrir Fjölni í kvöld þegar félagið vann sinn fyrsta sigur gegn Keflavík í úrvalsdeild kvenna. Keflavík gerði heiðarlega tilraun til að stela sigrinum í lokin en þá mætti Heiðrún Ríkharðsdóttir með fyrstu þrjú stigin sín í leiknum, þrist sem gerði út um leikinn.
Gular Fjölniskonur byrjuðu vel og elfdust enn frekar þegar Katina Mandylaris kom inn af bekknum og skyggði á Jaleesu Butler í frákastabaráttunni. Keflvíkingar fóru þá dýpra í vopnabúrið og leiddu 17-18 eftir fyrsta leikhluta þar sem Pálína Gunnlaugsdóttir var mikið að koma upp með boltann í Keflavíkurliðinu.
Keflvíkingar tóku 9-0 áhlaup í upphafi annars leiklhuta en þá tók Bragi Magnússon leikhlé fyrir gular og virtist hafa ljáð þeim drjúg hvatningarorð í eyra. Fjölnir kom 7-0 út úr leikhléinu eftir dreifbýlisþrist frá Britney Jones og skömmu síðar setti hún annan slíkan og minnkaði muninn í 29-31.
Birna Valgarðsdóttir fékk sína þriðju villu í Keflavíkurliðinu þegar um tvær mínútur voru til hálfleiks og við brotthvarf hennar tóku Fjölniskonur á rás. Svæðisvörn heimakvenna virkaði vel gegn Keflavík og Fjölnir lauk fyrri hálfleik með 10-0 dembu þar sem Katina Mandylaris skoraði í teignum fyrir gular rétt áður en leiktíminn rann út.
Britney Jones var með 16 stig og 5 fráköst hjá Fjölni í hálfleik en hjá Keflavík voru Jaleesa Butler og Birna Valgarðsdóttir báðar með 7 stig. Þá var Birna Eiríksdóttir með 9 stig í leikhléi hjá Fjölniskonum.
Meistarar Keflavíkur komu út með látum í síðari hálfleik og minnkuðu muninn í 43-40 en gular tóku þá við sér. Birna Eiríksdóttir hrökk í gang í liði Fjölniskvenna og sleit gular frá með þrist, 48-40 og snöggtum síðar gerði hún fimm stig í röð, öll spjaldið og ofaní. Birna hélt gulum við efnið og Fjölnir leiddi 58-48 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Hægt og bítandi í fjórða leikhluta færðust Keflvíkingar nær og þegar 1.11mín. var til leiksloka minnkaði Jaleesa Butler muninn í 72-70 af vítalínunni. Fjölniskonur héldu í sókn þegar 26 sekúndur voru eftir og fundu Heiðrúnu auða fyrir utan þriggja stiga línuna, Heiðrúnu var ekki til setunnar boðið, lét vaða og skoraði, staðan 77-72 og náðarhöggið komið. Lokatölur reyndust svo 79-72 Fjölni í vil og nýr kafli hafinn hjá Grafarvogsliðinu eftir þennan fyrsta sigur kvennaliðs félagsins á Keflavík í efstu deild.
Frammistaða Fjölniskvenna var góð í kvöld og Keflvíkingar þurfa ekki að naga sig í handarbökin yfir þessum ósigri. Bakvarðahópur meistaranna er ungur að árum en gríðarlega efnilegur og verður fróðlegt að sjá hvernig þær muni svara þessum tapleik í næstu umferðum.
Stigaskor:
Fjölnir: Brittney Jones 33/6 fráköst/7 stoðsendingar, Birna Eiríksdóttir 19/4 fráköst, Katina Mandylaris 19/17 fráköst, Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir 3/8 fráköst, Erla Sif Kristinsdóttir 3/6 fráköst, Eva María Emilsdóttir 2/5 fráköst/5 stoðsendingar, Telma María Jónsdóttir 0, Dagbjört Helga Eiríksdóttir 0, Erna María Sveinsdóttir 0, Margrét Loftsdóttir 0, Sigrún Gabríela Jóhannsdóttir 0.
Keflavík: Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 21/7 fráköst, Jaleesa Butler 21/14 fráköst/5 stoðsendingar, Pálína Gunnlaugsdóttir 7/5 fráköst, Helga Hallgrímsdóttir 6/5 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 6, Hrund Jóhannsdóttir 6/4 fráköst, Telma Lind Ásgeirsdóttir 3, Lovísa Falsdóttir 2, Sigrún Albertsdóttir 0, Sandra Lind Þrastardóttir 0, Bríet Sif Hinriksdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0.
Dómarar: Halldor Geir Jensson, Georg Andersen
Karfan.is
Mynd: Björn Ingvarsson