Keflvíkingar töpuðu í Laugardalnum
Sigurmark KR kom í uppbótartíma
Keflvíkingar töpuðu rétt í þessu fyrir KR-ingum í úrslitaleik Borgunarbikarsins 2-1. Sigurmark KR kom í uppbótartíma en það skoraði Kjartan Henry Finnbogason. Keflvíkingar komust yfir snemma leiks en þá skoraði Hörður Sveinsson gott mark. KR náði reyndar að jafna örskömmu síðar með marki eftir hornspynu. Staðan 1-1 í hálfleik. KR-ingar voru með boltann bróðurpartinn af síðari hálfleik án þess þó að skapa sér teljandi færi. Það var svo sem blaut tuska í andlitið þegar KR-ingar skoruðu sigurmarkið í blálokin þegar allt stefndi í framlengingu.