Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar töpuðu heima fyrir Þór/KA
Amelía Rún Fjeldsted skoraði mark Keflavíkur í tapi gegn Þór/KA. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 7. júlí 2021 kl. 09:28

Keflvíkingar töpuðu heima fyrir Þór/KA

Níunda umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu var leikin í gær. Keflavík tók á móti Þór/KA í miklum baráttuleik á botninum en fyrir leikinn voru norðankonur í fallsæti með átta stig. Þór/KA var mun sprækari aðilinn í leiknum og höfðu á endanum betur, 1:2. Með sigrinum fór Þór/KA upp fyrir Keflavík sem situr nú í áttunda sæti með níu stig, Fylkir er einnig með níu stig en lakara markahlutfall og neðst er Tindastóll sem vann góðan sigur á Stjörnunni og er komið með átta stig.

Það var ljóst að norðankonur ætluðu að selja sig dýrt í þessum mikilvæga leik en þó voru það Keflvíkingar sem byrjuðu betur og voru hársbreidd frá því að taka forystuna snemma leiks þegar Aerial Chavarin hafði betur í viðureigninni um boltann eftir hornspyrnu en hitti ekki markið úr erfiðu færi umkringd varnarmönnum. Krafturinn í Keflvíkingum dvínaði fljótlega á meðan norðankonur börðust vel og færðust í aukana, þær voru mun grimmari í alla bolta en heimaliðið og gáfu Keflvíkingum engan frið til að byggja upp sóknir.

Það dró til tíðinda á 21. mínútu þegar Þór/KA fékk aukaspyrnu fyrir utan teig og skoruðu beint úr henni. Gestirnir komnir yfir og þær héldu áfram stífri pressu á Keflavík. Það var fátt um alvöru færi það sem eftir lifði hálfleiksins og staðan 0:1 þegar flautað var til leikhlés.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar mættu sterkar inn í seinni hálfleik og settu mikinn þunga í sóknina á fyrstu mínútunum. Amelía Rún komst í ágætis færi en hitti ekki á markið og Natasha Anasi átti skalla í þverslánna.

Á 65. mínútu náði Þór/KA góðri sókn upp hægri kantinn og komust inn í teig heimamanna. Tiffany Sornpao, markvörður Keflavíkur, átti ágætis úthlaup og varði boltann en hann hrökk fyrir fætur sóknarmanns Þórs/KA sem skoraði auðveldlega. Keflvíkingar höfðu verið að komast inn í leikinn en voru skyndilega orðnar tveimur mörkum undir.

Norðankonur tvíefldust við markið og héldu áfram að djöflast í Keflvíkingum sem gekk illa að halda boltanum innan liðsins og byggja upp spil. Keflavík reyndi að sækja en færin létu á sér standa. 

Sókn Keflvíkinga bar loks árangur á 90. mínútu þegar Amelía Rún átti gott skot utan teigs og setti hann í markvinkilinn fjær, óverjandi fyrir markvörð Þórs/KA. Með markinu lifnaði örlítið vonarglæta fyrir Keflvíkinga sem reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn en áfram gáfu norðankonur sig alla í varnarvinnuna og náðu að landa 1:2 sigri.

Aerial Chavarin var dugleg í gær og reyndi sitt ítrasta. Þessum sterka framherja mættu hins vegar oft óblíðar móttökur varnarmanna Þórs/KA.

Keflvíkingar hittu ekki á sinn besta dag í gær, þær voru skrefinu á eftir norðankonum í flestum aðgerðum og áttu í erfiðleikum að finna taktinn í leiknum. Sóknarleikur þeirra var andlaus og gekk oftast út á langar sendingar fram á Aerial sem var í strangri gæslu varnarmanna Þórs/KA. Reyndar má setja spurningarmerki við hversu langt dómari leiksins leyfði norðankonum oft að ganga en ansi oft virtist brotið á Aerial án þess að dæmt væri.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndirnar á leiknum sem má sjá í meðfylgjandi myndasafni.

Keflavík - Þór/KA (1:2) | Pepsi Max-deild kvenna 6. júlí 2021