Keflvíkingar töpuðu gegn KR - Nýr erlendur leikmaður reyndist erfiður
Keflvíkingar heimsóttu KR-inga í DHL-höllina í kvöld í öðrum leik undanúrslita Iceland Express-deildar kvenna. Leikurinn var jafn allt þar til í síðasta leikhlutanum en þá sigu KR stúlkur framúr og sigruðu 75-64.
KR-ingar byrjuðu á því að komst í 4-0 í DHL-höllinni í kvöld en þá hrukku Keflvíkingar í gang og skoruðu 13 stig í röð. Leikurinn var mjög kaflaskiptur í upphafi og nú var komið að KR að skora 11 stig í röð án þess að Keflvíkingar næðu að svara og staðan 17-13 fyrir KR í byrjun annars leikhluta. Keflvíkingar komust svo yfir í stöðunni 26-27 og þá rúmar 5 mínútur til leikhlés. Liðin skiptust svo á að leiða fram að leikhlé en Keflvíkingar gengu til búningsklefa með eins stigs forskot 37-38.
Stigaskorið dreifðist vel hjá Keflavíkurstúkum í fyrri hálfleik og voru Pálína Gunnlaugsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir og Jacquline Adamshick allar með 10 stig. Hjá KR lét nýji leikmaðurinn þeirra, Melissa Jeltema mikið að sér kveða og skoraði 17 stig.
Leikurinn var áfram mjög jafn í byrjun seinni hálfleiks og KR hafði eins stigs forystu þegar lokaleikhlutinn hófst 52-51 og leikurinn í járnum. KR héldu undirtökunum og Keflvíkingar gerðust sekar um að tapa boltanum of oft og áttu hreinlega í erfiðleikum í sóknarleiknum. Þegar um 3 mínútur eru eftir er staðan 65-56 fyrir heimamenn og Keflvíkingar reyna hvað þær geta að pressa á KR-inga og breyta í svæðisvörn. Þær höfðu ekki erindi sem erfiði og KR fann glufur í vörn Keflvíkinga á meðan lítið gekk upp í sóknarleik þeirra bláklæddu. Svo fór að lokum að KR landaði þægilegum sigri og urðu lokatölur 75-64 heimamönnum í vil.
Hjá Keflavík voru þær atkvæðamestar: Bryndís Guðmundsdóttir 21 stig/5 fráköst/8 tapaðir boltar, Pálína Gunnlaugsdóttir 16 stig/7 fráköst, Jackie Adamshick 12 stig/12 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir 8 stig, Marina Caran 7 stig.
Nýji leikmaður KR Melissa Jeltema átti fræbæran leik og skoraði 25 stig og hirti 12 fráköst.
Liðin munu því heyja harða baráttu á föstudaginn í Toyota-höllinni en þá mun Margrét Kara Sturludóttir mæta aftur í lið þeirra röndóttu.
EJS