Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Mánudagur 25. febrúar 2002 kl. 20:25

Keflvíkingar þurfa að setja upp grimmdargrímuna

Einhvern veginn reiknuðu allir með auðveldum sigri á Haukum í gær í úrvalsdeildinni í körfuknattleik. Leikmenn voru ekki sérlega einbeittir og áhorfendur voru fáir og hljóðlátir. Leikurinn bar þess merki og var frekar tilþrifalítill, ef undan eru skilin tilþrif Damons og 3ja stiga hittni Guðjóns Skúlasonar, segja Keflvíkingar á vef sínum.Og þeir halda áfram: Jafnræði var með liðunum í upphafi þó okkar menn hafi verið feti framar. Vörn okkar manna var ekki jafn aggressív og oft áður svo Haukarnir fengu töluvert af opnum færum. Gunnar Einarsson var að vísu drjúgur í byrjun. Að flestu leyti var hittni Keflavíkurpilta slök til að byrja með, eða allt þar til Guðjón kom inná. Hann setti niður þrjár 3ja í röð og alls 6 í leiknum.
Staðan var 47-43 í hálfleik en í þriðja leikhluta náðu Damon & Co. góðum spretti og byggðu upp 17 stiga forskot, 68-51. Á þessum kafla náðu menn krafti í pressuvörnina og fengu mörg hraðupphlaup sem enduðu með körfum. Damon skoraði að vild og sérlega glæsilegt var þegar Gunnar Einarsson varði sniðskot Guðmundar Bragasonar með miklum tilþrifum.
En eftir góðan sprett gáfu piltarnir full mikið eftir og hleyptu Haukunum aftur inn í leikinn, eins og oft hefur gerst í vetur. Sér í lagi blómstraði Bjarki Haukamaður með góðri hittni úr opnum 3ja stiga skotum. Munurinn hvarf hratt og fór niður í tvö stig. Þá tóku menn sig taki, líkt og einnig hefur oft gerst í vetur, og kláruðu leikinn með stæl. Sverrir stjórnaði leiknum vel og Guðjón setti tvær mikilvægar körfur í lokin sem gulltryggðu sigurinn.
Damon var gríðarlega öflugur í leiknum og skoraði yfir 40 stig. Drengurinn er í topp formi og sýnir enn og aftur yfirburði sína á leikvellinum. Jón Hafsteins var einnig sterkur í vörninni, þó vítahittni hans hefði getað verið betri. Allt í allt var þó leikur liðsins ekki eins og best getur orðið og ljóst er að menn þurfa að setja upp grimmdargrímuna fyrir leikinn á fimmtudaginn þegar tekist verður á um toppsæti deildarinnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024