Keflvíkingar sýndu mikla yfirburði
Eftir að hafa tapað fyrir nýliðum Þórs í síðustu umferð Subway-deildar kvenna mættu Keflvíkingar gríðarlega einbeittar til leiks í toppslaginn gegn Njarðvík í gær. Fyrirfram var búist við jöfnum leik en gestirnir frá Njarðvík sáu aldrei til sólar og Keflavík vann stórsigur og jók forskot sitt á toppnum.
Keflavík - Njarðvík 72:45
Keflavík leiddi með fimm stigum eftir fyrsta leikhluta (15:10) en í öðrum leikhluta skildu leiðir. Keflvíkingar gerðu 25 stig en Njarðvíkingar ekki nema tólf, munurinn því átján stig (40:22) í hálfleik og ljóst að það yrði á brattann að sækja fyrir gestina í seinni hálfleik.
Heimakonur voru samt ekkert á þeirri skoðun að hleypa leiknum upp í einhverja spennu og þær héldu áfram að þjarma að gestunum í þriðja leikhluta. Munurinn jókst enn meira og fyrir lokafjórðunginn var aðeins formsatriðið að klára leikinn, staðan 60:34. Að lokum hafði Keflavík 27 stiga sigur og hefur aðeins tapað einum leik á tímabilinu. Tapið í gær var það þriðja hjá Njarðvík og eru þær njarðvísku jafnar Grindavík og Stjörnunni í öðru til fjórða sæti deildarinnar.
Þetta var ekki gott kvöld hjá Njarðvík sem hefur eflaust gælt við að komast upp að hlið Keflvíkinga á toppnum en heimakonur sýndu mikla yfirburði og réðu lögum og lofum í leiknum.
Hjá Keflavík var Elisa Pinzan stigahæst með fjórtán stig og þær Anna Ingunn Svansdóttir og Thelma Ágústsdóttir þrettán hvor. Danielle Wallen var svo með tíu stig.
Emilie Hesseldal og Andela Strize skiluðu ellefu stigum hvor fyrir Njarðvík og þá var Ena Viso með átta stig.