Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar sýndu ekki sínar bestu hliðar og eru úr leik
Ólafur Ingi Styrmisson reynir við þrist í kvöld. VF-myndir: pket
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 11. janúar 2023 kl. 22:11

Keflvíkingar sýndu ekki sínar bestu hliðar og eru úr leik

Dagsformið var ekki upp á það besta hjá Keflvíkingum sem voru slegnir út úr VÍS-bikar karla í körfuknattleik í kvöld af Stjörnumönnum. Slæmur kafli í lok þriðja leikhluta gerði útslagið þegar Stjarnan gerði tíu stig í röð og fór inn í fjórða leikhluta með átta stiga forskot. Þeir héldu áfram að hamra járnið á meðan það var heitt og náðu sextán stiga forystu snemma í fjórða leikhluta (80:64). Keflvíkingar reyndu að vinna upp forskotið en að lokum urðu þeir að játa sig sigraða með sex stiga mun, 89:83 fyrir Stjörnunni sem mætir Val í úrslitum á laugardag.

Stjarnan - Keflavík 89:83

(26:24, 17:21, 27:17, 19:21)

Það voru Stjörnumenn sem byrjuðu betur og leiddu eftir fyrsta leikhluta en Keflavík sneri taflinu við í öðrum leikhluta og fóru með tvö stig inn í hálfleikinn.

Leikurinn var jafn og lengst af munaði mjög litlu á liðunum en Keflvíkingar myndu án efa vilja breyta miklu í sínum leik í þriðja og fjórða leikhluta en þá misstu þeir hann algerlega frá sér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dominykas Milka lét mest að sér kveða í liði Keflavíkur en annars voru allflestir að spila langt undir getu.

Það er því ljóst að Keflavík vinnur ekki tvöfalt í bikarkeppninni í ár en VÍS-bikar kvenna er enn í sjónmáli. Um hann keppir Keflavík við Hauka á laugardag og hefst sá leikur klukkan 13:30.

Keflavík: Dominykas Milka 29/12 fráköst, Eric Ayala 18/5 fráköst, Igor Maric 18/5 fráköst, Ólafur Ingi Styrmisson 10, Halldór Garðar Hermannsson 4, Hörður Axel Vilhjálmsson 3/9 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 1/4 fráköst, David Okeke 0, Magnús Pétursson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Arnór Sveinsson 0, Yngvi Freyr Óskarsson 0.


Páll Ketilsson skellti sér á leikinn og tók meðfylgjandi myndir.