Keflvíkingar strand í Eyjum
Pepsi deildarlið Keflvíkinga er strand í Vestmannaeyjum en liðið lék þar gegn ÍBV í gær. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í leik þar sem veðrið spilaði stórt hlutverk.
Herjólfur gat ekki siglt í gærkvöldi og í morgun vegna ölduhæðar og Keflvíkingar eru því fastir í Eyjum. Fyrirhugað er að Keflvíkingar æfi í Eyjum en liðið á leik á mánudaginn næstkomandi gegn Fram.
Í samtali við Fótbolta.net segist Kristján Guðmundsson þjálfari liðsins hafa bent KSÍ á að veðurspáin væri slæm fyrir leikinn og daginn í dag.
„Ég benti starfsmanni KSÍ á að þetta gæti orðið staðan en það var þannig séð ekkert hlustað á það,“ sagði Kristján við vefsíðuna.
„Það lítur ekki út fyrir að við komumst héðan í dag. Við erum að upplifa það sem eyajskeggjar búast við. Þeir komast ekkert þó þeir vilji.Við erum ekkert að barma okkur en kannski hefði verið hægt að vinna þetta öðruvísi.“
Frétt frá Fótbolti.net.