Keflvíkingar stofna Bláa liðið
Bjóða upp á séræfingar fyrir yngri iðkendur
Keflvíkingar hafa hrundið af stað sérstöku verkefni í fótboltanum þar sem markmiðið er að styðja sérstaklega við þjálfun knattspyrnuiðkenda í 3. og 4. karla og kvenna. Það er framherjinn Magnús Sverrir Þorsteinsson hjá Keflavík sem er helst hvatamaður að verkefninu sem nefnist Bláa liðið, en barna- og unglingaráð Keflavíkur útvegar þjálfara og velur m.a. leikmenn til þátttöku.
Þessu unga afreksfólki verður boðið á séræfingar með þar að leiðarljósi að leikmennirnir skili sér upp í meistaraflokka félagsins og nái enn lengra í knattspyrnunni. Þjálfarar yngri flokka Keflavíkur munu sjá um æfingar en ætlunin er að fá reglulega gestaþjálfara til að styðja við verkefnið.