Keflvíkingar stóðu sig vel í Sarajevo
Keflvíkingar áttu flotta fulltrúa í U18 liði Íslands sem náði frábærum árangri í B-deild Evrópumótsins í körfubolta kvenna. Keppnin fór fram í Sarajevo og höfnuðu Íslendingar þar í fjórða sæti. Þær Thelma Dís Ágústsdóttir, Emelía Ósk Gunnarsdóttir, Katla Rún Garðarsdóttir og Þóranna Kika Hodge-Carr voru fulltrúar Keflvíkinga á mótinu.
Íslendingar léku um brons í keppninni og sæti í A-deild um leið. Það tókst því miður ekki en Keflvíkingar stóðu sig með prýði. Keflvíkingurinn Thelma Dís Ágústsdóttir var atkvæðamest hjá íslenska liðinu með 16 stig í leiknum um þriðja sætið, þar sem Þóranna skoraði 11 stig. Fleiri Suðurnesjastelpur eru einnig í liðinu, þær Björk Gunnarsdóttir úr Njarðvík og Keflvíkingurinn Elfa Falsdóttir sem nýlega gekk til liðs við Val.