Keflvíkingar steinlágu í Kópavogi
1. deildin færist nær með hverjum leiknum
Keflvíkingar þurftu að þola stóran ósigur gegn Breiðablik er liðin mættust í kvöld á Kópavogsvelli í 14. umferð Pepsí deildar karla. Lokatölur urðu 4-0 fyrir heimamenn.
Liðin skiptust á færum til að byrja með og má segja að bæði lið hafi verið óheppin að vera ekki búin að skora mark á fyrsta hálftíma leiksins en besta færi Keflvíkinga fram að því átti Hólmar Örn Rúnarsson þegar skot hans hafnaði í þverslánni. Það voru þó Blikar sem reyndust áræðnari og náðu að skora tvö mörk með aðeins tveggja mínútna millibili áður en flautað var til hálfleiks. Það fyrra gerði Jonathan Glenn á 42. mínútu með skalla og það var svo Höskuldur Gunnlaugsson sem að skoraði á 44. mínútu eftir glæsilegan undirbúning frá Kristni Steindórssyni og Guðjóni Pétri Lýðssyni.
Staðan því 2-0 fyrir Blika í hálfleik sem að höfðu sett Keflvíkinga í gríðarlega erfið mál fyrir síðari hálfleikinn.
Ef að róðurinn var þungur fyrir var það ekki til að bæta stöðuna þegar Breiðablik skoraði þriðja markið á 4. mínútu síðari hálfleiks en þar var að verki Arnþór Atlason eftir enn eina sókn heimamanna upp hægri kantinn þar sem að Kristinn Steindórsson fór hreinlega hamförum og dældi boltum inn í teig Keflvíkinga en það má færa gild rök fyrir því að Keflvíkingar hafi hreinlega ekki mætt til leiks í seinni hálfleik.
Eftir þetta var bara spursmál hversu stór sigurinn yrði og létu Keflvíkingar mótlætið fara í taugarnar á sér og fengu að líta nokkur gul spjöld á stuttum kafla, rétt áður en heimamenn settu punktinn yfir i-ið á 68. mínútu þegar Höskuldur Gunnlaugsson skoraði eftir aukaspyrnu Guðjóns Péturs Lýðssonar.
Eftir síðasta markið róaðist leikurinn heilmikið og reyndu Keflvíkingar hvað þeir gátu til að minnka muninn og komust nálægt því tvisvar sinnum en uppskáru ekki erindi sem erfiði og flautaði Garðar Örn Hinriksson til leiksloka án þess að Keflvíkingar næðu að svara fyrir sig.
Táradalur Keflvíkinga ætlar því engann endi að taka og er erfitt að reyna að finna jákvæða punkta á þeirra leik eða sannfæra sjálfan sig um að Pepsí deildin sé vettvangur fyrir lið sem spilar ekki á hærra plani en þetta í hverri viku.
Sem fyrr situr liðið á botni deildarinnar en liðin í næstu sætum á undan færast fjær með hverri umferð sem líður. Keflvíkingar taka á móti Fjölni í næstu umferð en Fjölnismenn unnu í kvöld góðan 2-1 sigur á KR og má því reikna með erfiðum leik fyrir strákana úr bítlabænum.