Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 1. júní 2000 kl. 22:17

Keflvíkingar steinlágu í Eyjum, en baráttuglaðir Grindvíkingar unnu ÍA

Keflavík tapaði sínum fyrsta leik í Landssímadeildinni í kvöld, er Eyjamenn burstuðu þá með fimm mörkum gegn engu. Fyrsta mark leiksins kom strax á annarri mínútu leiksins þegar Ingi Sigurðsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks. Á fyrstu þremur mínútum síðari hálfleiks bættu heimamenn við tveimur mörkum, en þar voru að verki þeir Allan Mörkore og Goran Aleksic. Gestur Gylfason, Keflvíkingur fékk að líta rauða spjaldið, eftir að hafa hlotið tvö gul spjöld, og léku Keflvíkingar því einum færri meiri hluta síðari hálfleiks. Á 79. mínútu braut Liam O´Sullivan af sér innan vítateigs Keflvíkinga og skoraði Steingrímur Jóhannesson af öryggi úr vítaspyrnu í kjölfarið. Jóhann Möller náði að bæta fimmta markinu við fyrir heimamenn áður en leikurinn var úti og gerði það með hjólhestaspyrnu af stuttu færi. Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum, enda þykir Keflvíkingum líkast til nóg um. Grindvíkingar eru hins vegar enn taplausir í Landssímadeildinni í sumar, en þeir lögðu Skagamenn með einu marki gegn engu í Grindavík í kvöld. Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu beggja liða, en lítið var um hættuleg færi og staðan í hálfleik 0:0. Paul McShane skoraði eina mark leiksins á 57. mínútu, við mikinn fögnuð heimamanna eftir að hafa fengið góða sendingu inn fyrir vörn Skagamanna. Grindvíkingar efldust við markið og sóttu fast að marki gestanna það sem eftir lifði leiks, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Góður sigur hjá Grindvíkingum sem sitja nú í fjórða sæti deildarinnar með átta stig, jafnt og ÍBV og Fylkir, sem eru í öðru og þriðja sæti með betra markahlutfall. KR-ingar eru ekki langt undan, á toppi deildarinnar með níu stig.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024