Keflvíkingar steinlágu fyrir Grindvíkingum
Grindvíkingar urðu í kvöld Suðurnesjameistarar í knattspyrnu jafnframt því að tryggja sér sæti í fjögurra-liða úrslitum deildarbikarsins, með stórsigri á Keflvíkingum, 5:1, í Reykjaneshöll.Grindvíkingar voru miklu betri allan leikinn og slakt lið Keflvíkinga átti sér aldrei viðreisnar von. “Það ríkti andleysi í liðinu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og á meðan allt gekk upp hjá Grindavík, gekk ekkert upp hjá okkur. Það eina jákvæða við leikinn fyrir okkur er að við lærum af þessu og bætum fyrir það sem úrskeiðis fór,” sagði Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Keflvíkinga, eftir leikinn.