Keflvíkingar skoruðu ítrekað í eigið mark
Tvö sjálfsmörk Keflavíkur á þriggja mínútna kafla í síðari hálfleik gerðu út um möguleika á að minnsta kosti jafntefli í viðureign þeirra við FH í Pepsideild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu í kvöld.
Keflvíkingar voru sprækari í fyrri hálfleik og áttu góða spretti sem skiluðu sér með marki á 24. mínútu þegar Dagur Dan Þórhallsson skoraði fyrir Keflvíkinga. Steven Lennon jafnaði fyrir gestina tíu mínútum síðar og staðan var jöfn í hálfleik.
Á þriggja mínútna kafla í síðari hálfleik gerðu Keflvíkingar út um leikinn - fyrir sjálfa sig. Tvö sjálfsmörk, það fyrra frá Antoni Frey Hauks Guðlaugssyni og það síðara frá Marc McAusland.
Leikur Keflvíkinga var oft með ágætum í kvöld en ólukkan getur vart verið meiri, að skora tvö sjálfsmörk. Þá fannst heimamönnum einnig á sig hallað í dómgæslu leiksins.
Með úrslitum kvöldsins er Keflavík fallið úr Pepsideildinni þrátt fyrir að eiga fjóra leiki eftir. Liðið hefur aðeins fjögur stig.