Keflvíkingar sigra í Sláturhúsinu
Deildarmeistarar Keflavíkur tryggðu sér farseðilinn í fjögurra liða úrslit Intersport-deildarinnar á kostnað Grindvíkinga með fimm stiga sigri, 80-75 í Sláturhúsinu í kvöld. Þá er ljóst að Keflvíkingar verða einu fulltrúar Suðurnesja í fjögurra liða úrslitum Intersport-deildarinnar. Það hefur ekki gerst frá 1985 að tvö eða fleiri Suðurnesjalið séu ekki í fjögurra liða úrslitum úrvalsdeildarinnar.
Sláturhúsið var troðfullt í kvöld og áhorfendur komnir til að horfa á tvö frábær lið kljást inn á vellinum. Jón Hafsteinsson var heiðraður fyrir að hafa spilað 300 leiki í Keflavíkurtreyjunni á ferlinum fyrir leikinn. Jón kom heldur betur við sögu í þessum leik.
Keflvíkingar byrjuðu betur og var Nick Bradford illviðráðanlegur undir körfu Grindvíkinga. Nick færir sóknarleik Keflvíkinga aukna vídd með mjúkum hreyfingum uppvið körfu andstæðinga og voru Keflvíkingar duglegir við að leita að honum á upphafsmínútum og skilaði hann vel með góðum körfum. Darrel Lewis var öflugur í fyrsta leikhluta og virtist ekki skipta máli hvort hann keyrði upp að körfunni eða skaut fyrir utan teig, boltinn rataði alltaf rétta leið. Keflvíkingar náðu 10 stiga forskoti 23-13 en Grindvíkingar náðu að jafna leikinn 23-23 í frábærum lokakafla fjórðungsins þar sem Darrel Lewis var með sjö stig og Páll Axel einn þrist og þannig var staðan í lok fyrsta leikhluta.
Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflvíkinga, keyrði á mörgum mönnum og skipti ört inná í öðrum leikhluta. Grindvíkingar skoruðu ekki stig fyrstu tvær og hálfa mínútu annars leikhluta og Keflvíkingar komust í 31-23. Varnarleikur Keflvíkinga var að gera Grindvíkingum erfitt fyrir og neyddust þeir oft að skjóta erfiðum skotum. Jeffrey Boschee lét þá til sín taka og setti niður tvær þriggja stiga körfur með stuttu millibili og kom Grindvíkingum inn í leikinn. Anthony Glover var atkvæðamikill fyrir Keflvíkinga í öðrum leikhluta og mikill styrkur hans var Grindvíkingum erfiður. Keflvíkingar náðu aldrei að hrista Grindvíkinga almennilega af sér og var það einna helst fyrir leik Jeffrey Boschee, sem skoraði níu stig í fjórðungnum, sem hélt Grindvíkingum á floti. Staðan í hálfleik var 44-37.
Nick Bradford átti stjörnuleik fyrir Keflvíkinga í fyrri hálfleik og var með 19 stig og 10 fráköst. Anthony Glover var með 11 stig. Darrel Lewis var með 15 stig fyrir Grindvíkinga, Jeffrey Boschee 9 og Páll Axel 8 stig í fyrri hálfleik.
Jón Hafsteinsson kom öflugur til leiks í seinni hálfleik og ætlaði sér greinilega að gera 300. leikinn sinn fyrir Keflavík eftirminnilegan. Jón fór fyrir sínum mönnum í góðum kafla Keflvíkinga sem kom þeim í 10 stiga forskot 51-41. Keflvíkingar náðu þó aldrei að sigla almennilega frá Grindvíkingum og varði tveggja tölu munur Keflvíkinga ekki lengi. Grindvíkingar náðu virkilega að narta í hælana á Keflvíkingum þegar Terrel Taylor, sem var sterkur í fjórðungnum, saxaði forskot Keflvíkinga niður í fjögur stig með þriggja stiga körfu á lokasekúndum fjórðungsins 60-56. Þannig var staðan í lok þriðja leikhluta og von á mikilli spennu í síðasta leikhluta þar sem allt gat gerst.
Grindvíkingar gerðu sig virkilega líklega til að ná forskoti Keflvíkinga í upphafi fjórða leikhluta og minnkuðu muninn niður í aðeins tvö stig 62-60. Þá kemur Sverrir Sverrisson, sem hafði spilað vel varnarlega fyrir Keflvíkinga, með eftirtektaverðri baráttu, þar sem hann henti sér í gólfið eftir öllum lausum boltum sem varð til þess að Keflvíkingar komust í skyndisóknir og náðu sjö stiga forskoti 70-63. Barátta Sverris smitaði útfrá sér og Keflvíkingar börðust vel sem sterk liðsheild bæði í vörn og sókn. Boltinn gekk hratt á milli manna hjá Keflavík og Grindvíkingar áttu hreinlega engin svör. Jón Hafsteinsson hélt Darrel Lewis gjörsamlega niðri í síðasta leikhlutanum og skoraði Lewis aðeins tvö stig í fjórðungnum og bæði af vítalínunni. Keflvíkinga komust í 78-71 þegar um mínúta lifði leiks og eftir það var sigurinn nokkuð öruggur 80-75, þrátt fyrir að Grindvíkngar gæfust aldrei upp.
Gunnar Einarsson spilaði lítið fyrir Keflvíkinga enda meiddist hann í öðrum leik liðanna í Grindavík. Magnús Gunnarsson og Sverrir Sverrisson spiluðu fanta vörn á Helga og héldu honum niðri í stigaskorun. Arnar Jónsson kom með góða spretti fyrir Keflvíkinga og skoraði mikilvægar körfur. Nick Bradford var án efa maður leiksins í kvöld með 29 stig, 16 fráköst og 6 stoðsendingar. Anthony Glover var með 19 stig og 10 fráköst, Jón Hafsteinsson 12 stig og 7 fráköst og Magnús Gunnarsson 9 stig.
Hjá Grindavík var Terrel Taylor öflugur í teignum og skoraði 15 stig og tók 14 fráköst. Darrel Lewis skoraði 22 stig fyrir Grindvíkinga og lék vel í fyrri hálfleik en Keflvíkingar náðu að halda honum í skefjum í seinni hálfleik. Jeffrey Boschee er feiknar góð skytta og var seigur að finna góð skotfæri, hann skoraði 20 stig fyrir Grindvíkinga. Páll Axel var með 13 stig og 8 fráköst. Ekki var sjón að sjá Helga Jónas miðað við leik kappans á laugardag í öðrum leik liðanna, og skoraði hann aðeins fimm stig í leiknum.
Aðeins fimm leikmenn Grindvíkinga skoruðu stig í leiknum í kvöld á meðan að Keflvíkingar keyrðu á mannskap sínum og létu allir í púkkið. Breidd Keflvíkinga var einfaldlega meiri í kvöld og er það stór ástæða fyrir sigrinum.
Sigurður Ingimundarson sagði þetta skemmtilegan og vel spilaðan varnarleik tveggja frábærra liða. „Við ætlum að vera stoltir fulltrúar Suðurnesja í þessari keppni og standa okkur, og sjá til þess að bikarinn verði hér, þar sem hann á að vera”. Um einvígið gegn ÍR segir hann liðið ætla mæta einbeitt til leiks og byggja á þeim hlutum sem liðið hefur verið að gera vel.
Magnús Gunnarsson var ánægður í leikslok og sagði það ekki hafa verið upp á teningnum fyrir leik að tapa tveimur leikjum í röð gegn Grindavík, „Við töpuðum leiknum á laugardag og við þjöppuðum okkur saman fyrir leikinn í kvöld, við spiluðum hörku vörn og þurftum ekkert að skora meira í leiknum sem var upp á líf og dauða og við uppskárum góðan sigur”. Magnús var vígreifur fyrir rimmuna gegn ÍR og ætlaði ekki að láta þá komast upp með að fá titil á sig sem Suðurnesjabana „Þeir voru Suðurnesjabanar en nú drepum við Breiðholtið”.
Tölfræði úr leiknum
VF-Myndir:/Hilmar Bragi