Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar sigra eftir framlengingu
Fimmtudagur 17. mars 2005 kl. 23:01

Keflvíkingar sigra eftir framlengingu

Keflvíkingar sigruðu ÍS í æsispennandi leik liðanna í úrslitakeppni kvenna, 76-71, eftir framlengdan leik og komust þar með yfir í einvíginu 1-0.

Rannveig Randversdóttir byrjaði vel fyrir Keflvíkinga og skoraði fyrstu fjögur stig leiksins. Stúdínur voru sýnd veiði en ekki gefin og svöruðu Keflvíkingum ávallt þegar Keflvíkingar voru að gera sig líklega til að síga framúr. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21-19 fyrir Keflvíkingum, þar sem Bryndís Guðmundsdóttir, Birna Valgarðsdóttir og Rannveig Randversdóttir létu mikið af sér kveða. Lítið var skorað í öðrum leikhluta þar sem bæði lið voru að spila fanta vörn. Stúdínur komust yfir, 27-28, og var það í fyrsta skipti síðan á upphafsmínútum sem þær leiddu. Birna Valgarðsdóttir og Anna María Sveinsdóttir voru sterkar í öðrum leikhluta en Stúdínur gáfu ekkert eftir og voru að hitta vel fyrir utan teig. Staðan í hálfleik var 36-35 fyrir Keflvíkingum og ríkti mikið jafnræði með liðunum.

Stúdínur byrjuðu seinni hálfleikinn betur og voru Keflvíkingar að gera mikið af mistökum og velja slæm skot, á meðan að Alda Jónsdóttir var atkvæðamikil í liði ÍS. Anna María og Alexandra Stewart voru þó að skila sínu í sóknarleik Keflvíkinga og staðan eftir þriðja leikhluta 42-43 og sem fyrr mikið jafnræði með liðunum. Stúdínur náðu góðum kafla í byrjun síðasta leikhluta og komust yfir 50-55 og áttu Keflvíkingar undir högg að sækja. Þegar mikið liggur undir eiga Keflvíkingar alltaf Önnu Maríu Sveinsdóttir og hún stóð undir nafni og skoraði mikilvæga þriggja stiga körfu. Birna Valgarðs fylgdi fordæmi Önnu og náði að jafna leikinn, 60-60 þegar um ein og hálf mínúta lifði leiks, og gríðarleg spenna í Sláturhúsinu. Alda Jónsdóttir skoraði fjögur stig af vítalínunni og kom ÍS í 60-64. Þegar 40 sekúndur voru eftir var brotið á Alexander Stewart og setti hún bæði vítin niður 62-64. Stúdínur misstu boltann og Stewart náði að jafna leikinn þegar aðeins 11 sekúndur voru eftir 64-64. Stúdínur fengu tækifæri á að gera útum leikinn en klikkuðu úr tveimur upplögðum skotum og grípa varð til framlengingar.

Í framlengingunni byrjuðu Stúdínur betur og komust í 66-69. Þá kom Birna Valgarðsdóttir til sögunnar og jafnaði leikinn með mikilvægri þriggja stiga körfu 69-69. Alexandra Stewart kemur þá Keflvíkingum yfir en Stúdínur jöfnuðu að bragði 71-71. Birna var öflug í framlengingunni og kom Keflvíkingum yfir 73-71 þegar um mínúta lifði leiks. Karfa Birnu reyndist vendipunktur leiksins og Keflvíkingar snéru leiknum sér í vil. Alexandra Stewart endaði leikinn með þremur vítaskotum og Keflvíkingar unnu leikinn 77-71 í æsispennandi leik.

Keflvíkingar voru í miklum vandræðum sóknarlega og voru þær þvingaðar í erfið skot og voru Stúdínur með 18 varin skot í leiknum. Reynsla Keflvíkinga vó þungt í kvöld og var stór þáttur í sigri þeirra.

Alexandra Stewart var með þrennu í leiknum, með 19 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar. Birna Valgarðsdóttir var einnig með 19 stig og 9 fráköst. Anna María Sveinsdóttir var mikilvæg Keflvíkingum í kvöld og skoraði 14 stig og tók 11 fráköst. Bryndís Guðmundsdóttir var með 13 stig og 8 fráköst. Svava Stefánsdóttir skoraði 3 stig og var það mikilvæg þriggja stiga karfa í fjórða leikhluta.

Hjá ÍS var Alda Jónsdóttir með 28 stig og Signý Hermansdóttir var með þrennu, 16 stig, 11 varin skot og 17 fráköst.

Sverrir Sverrisson, þjálfari Keflvíkinga, var ánægður í leikslok með mikilvægan sigur, „Við vorum ekki að spila okkar besta leik, misstum þær framúr undir lokin og sem betur fer sýndum við karakter og komum sterkar til baka og náðum að jafna og klára þetta í framlengingunni. Þetta eru tvö jöfn lið og maður getur ekki farið fram á meira en sigur og mér er sama hvernig við förum að því.“ Keflvíkingar voru á köflum í miklum vandræðum sóknarlega og voru Stúdínur með 18 skot varin í leiknum, „Það vantaði meiri ákveðni, fara sterkari upp að körfunni. Sóknarleikurinn var ekki góður hjá okkur og skotnýtingin mjög léleg“ Liðin mætast aftur á laugardag og má búast við hörku rimmu þar „Á laugardag í Kennaraháskólanum heldur baráttan áfram og við förum með því markmiði að klára þetta einvígi,“ sagði Sverrir að lokum.

Næsta viðureign liðanna er í Kennaraháskólanum á laugardag klukkan 17:00.

Tölfræði leiksins

VF-Myndir/Bjarni


 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024