Keflvíkingar sektaðir vegna ummæla áhorfanda
Setur svartan blett á Keflavík segir formaður knattspyrnudeildar
Keflvíkingar hafa verið sektaðir vegna niðrandi ummæla sem áhorfandi lét falla um þeldökkan leikmann á leik Keflavíkur og ÍBV í Pepsi deild karla þann 22. september s.l. Upphæðin nemur 30.000 krónum en ljóst er að upphæðin hefði getað verið mun hærri. Í nýsamþykktum agareglum FIFA sem enn hafa ekki öðlast lagagildi hér á landi kemur fram að heimilt er að sekta ef áhorfandi á knattspyrnuvelli sem særir með meiðandi hætti annan einstakling á grundsvelli litarháttar um allt að 4 milljónir króna. Við slíkum athöfnum liggur einnig tveggja ára bann að knattspyrnuvöllum.
Þorsteinn Magnússon formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur segist harma atburðinn en Keflvíkingar líta málið mjög alvarlegum augum.
„Ég harma það að enn skuli vera til einstaklingar sem eyðileggja fyrir fjöldanum, okkar stuðningmenn hafa verið frábærir og til mikillar fyrirmyndar undanfarin ár. Þeir hafa ávallt verið félaginu sínu til sóma. Þetta setur hins vegar svartan blett á Keflavík,“ sagði formaðurinn í samtali við Víkurfréttir.
„Aga-og úrskurðarnefnd gaf Keflavík kost á að tjá sig um málið. Í svarbréfi Keflavíkur kemur fram að þeir líta málið mjög alvarlegum augum, en kveðast ekki vita hver það var sem kallaði framangreind orð inn á völlinn,“ segir í bréfi sem úrskurðar- og aganefnd sendi Keflvíkingum.
Þar segir jafnframt: „Framangreind ummæli áhorfanda sem aga-og úrskurðarnefnd hefur hlustað á eru mjög gróf og myndu tvímælalaust vera talin falla undir fyrrnefnd ákvæði agareglna FIFA. Hin brotlegi aðili hefur ekki fundist og því ekki hægt að refsa honum. Telja verður fyrrnefnda framkomu vítaverða og þykir hæfileg sekt ákveðin kr. 30.000.- sem Keflavík ber að greiða.“
Tengd frétt: Umdeilt atvik í Keflavík
Keflvíkingar umbera ekki kynþáttafordóma