Keflvíkingar sektaðir vegna famkomu áhorfanda
Magnús í bann vegna olnbogaskots
Í dag voru Keflvíkingum birtir tveir úrskurðir aga- og úrskurðarnefndar er tengdust félaginu. Annars vegar var Magnús Þór Gunnarsson dæmdur í eins leiks bann fyrir olnbogaskot í leik KR og Keflavíkur í Domino's deildinni. Hins vegar var félagið dæmt til að greiða 25.000 kr. í sekt vegna hegðunar áhorfenda í garð dómara eftir leik Keflavíkur og Hauka í Domino's deild kvenna á dögunum en umræddur áhorfandi sýndi dómurum óvirðingu, m.a. með fúkyrðum og hótunum. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins.
Það segir ennfremur að af gefnu tilefni viji stjórn KKDK biðla til stuðningsmanna félagsins að sýna dómurum virðingu, bæði félaginu og þeim sjálfum til heilla enda hefur það ekki enn gerst í sögu íþrótta að fúkyrðaflaumur, persónuníð eða hótanir í garð dómara breyti dómum né geri liði þess sem þannig lætur gagn.
Hér að neðan má líta úrskurðarorðin;
Úrskurður aga- og úrskurðarnefndar nr. 15-2013/2014:
„Með vísan til ákvæðis h. liðar 1. mgr. 13. gr., sbr. d. liðar 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um aga - og úrskurðarmál skal kærði, Körfuknattleiksdeild Keflavíkur, greiða kr. 25.000 í sekt, vegna háttsemi áhangenda liðsins gagnvart dómurum eftir leik Keflavíkur og Hauka í Dominos-deild kvenna, sem fram fór 9. febrúar 2014. Vill aga- og úrskurðarnefnd að koma á framfæri ábendingu til forráðamanna Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur um að þeir tryggi betur öryggi dómara fyrir og eftir leiki sem félagið ber ábyrgð á.“
Agaúrskurður nr. 21/2013-2014.
„Með vísan til ákvæðis 2. mgr. 6. gr., sbr. e. liðar 2. mgr. 12. gr. og með hliðsjón af c. lið 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga - og úrskurðarmál skal hinn kærði, Magnús Þór Gunnarsson, leikmaður Keflavíkur, sæta eins leiks banni vegna háttsemi sinnar í leik KR og Keflavíkur, í úrvaldsdeild karla, sem fram fór þann 24. febrúar 2014.“