Keflvíkingar sakna miðjumanna í kvöld
Í kvöld koma Valsmenn í heimsókn á Nettóvöllinn í Keflavík í 17. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Er rétt að benda á að flautað verður til leiks kl. 18:00. Fyrir leikinn eru liðin á svipuðum slóðum í deildinni; Keflavík í 5.-6. sæti deildarinnar með 24 stig en Valur er í 9. sæti með 21 stig. Það verður fróðlegt að sjá liðsuppstillingu Keflavíkur í þessum leik en þeir Frans Elvarsson, Denis Selimovic og Einar Orri Einarsson verða allir í leikbanni. Arnór Ingvi Traustason hefur nýlega yfirgefið herbúðir Keflvíkinga og verður því enginn þeirra sem hafa venjulega leikið á miðsvæðinu með í þessum leik. Fyrri leik liðanna lauk með 4-0 sigri Valsmanna.
Fyrir leik Keflavíkur og Vals mun kvennaráð grilla hamborgara frá kl. 17:00 í félagsheimili Keflavíkur. Vill kvennaráð hvetja stuðningsmenn Keflavíkur til að fjölmenna á leikinn og styðja strákana. „Stöndum saman og þá verðum við í skemmtilegri baráttu allt til loka móts. Eins og margoft hefur komið fram hefur gengi Keflavíkurliðsins verið betra á útivöllum en á heimavelli í sumar. Enn er tími til að breyta því en það er ljóst að það tekst aðeins með sameiginlegu átaki stuðningsmanna og leikmanna,“ segir í tilkynningu frá kvennaráði.