Keflvíkingar sækja Fjölnismenn heim
Keflavík og Fjölnir mætast í 17. umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í kvöld mánudaginn 25. ágúst. Leikur liðanna fer fram á Fjölnisvelli og hefst kl. 18:00. Bæði lið eru í neðri hluta deildarinnar og hafa átt erfitt uppdráttar í síðustu leikjum. Fyrir leikinn er Keflavík í 6.-8. sæti deildarinnar með 18 stig en Fjölnismenn eru í 10.-11. sæti með 15 stig.
Efsta deild
Keflavík og Fjölnir hafa leikið fimm leiki í efstu deild, árin 2008 og 2009 og svo aftur í ár. Keflavík hefur unnið tvo leikjanna og Fjölnir einn en tveimur leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 10-8 fyrir Keflavík. Magnús Þorsteinsson hefur skorað tvö mörk gegn Fjölni og Hörður Sveinsson, Magnús Þórir Matthíasson og Jóhann B. Guðmundsson eitt hver.
Bikarkeppnin
Liðin hafa einu sinni mæst í bikarkeppninni en það var árið 2005. Liðin mættust þá í 32 liða úrslitum á Fjölnisvelli og vann Keflavík nauman 4-3 sigur. Guðmundur Steinarsson skoraði tvö mörk og þeir Hólmar Örn Rúnarsson og Stefán Örn Arnarson eitt hvor. Atli Guðnason skoraði tvö marka Fjölnis og Tómas Leifsson eitt.
Síðast
Liðin léku fyrr í sumar í Pepsi-deildinni og þá á Nettó-vellinum. Þeim leik lauk með 1-1 jafntefli þar sem Hörður Sveinsson kom Keflavík yfir en Christopher Paul Tsonis jafnaði fyrir Fjölni.