Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar rúlluðu Grindvíkingum upp í Subwaydeild karla
Grindvíkingar fjölmenntu þó ekki hafi verið eins margir eins og á leiknum á laugardag á móti Hamri.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 24. nóvember 2023 kl. 19:56

Keflvíkingar rúlluðu Grindvíkingum upp í Subwaydeild karla

Grindavík tók á móti Keflavík á sínum „heimavelli“ í Smáranum og eftir mikla stemningu á laugardaginn sem líktist mest bikarúrslitaleik, var viðbúið að Grindvíkingar myndu fá magalendingu og sú var raunin, Keflavík var með tögl og haldir nánast allan leikinn, leiddi með 22 stigum í hálfleik og sigruðu svo að lokum, 82-111.

Það var einhver „skjálfti“ í heimamönnum til að byrja með og opnuðu Keflvíkingar leikinn 0-10. 4-17 sást fljótlega en „heimamenn“ áttuðu sig svo og náðu vopnum sínum. Það sem eftir lifði fjórðungsins var eign gulra og þeir hefðu getað komist yfir í stöðunni 23-25 en þriggja stiga skot Vals Orra geigaði og Halldór Garðar setti þrist á móti en Basile setti tveggja stiga skot og staðan því 25-28 eftir fyrsta fjórðung.

Keflvíkingar mættu aftur grimmari í byrjun fjórðungs og eftir tæpar fjórar mínútur tók Jóhann Þór, þjálfari Grindavíkur, leikhlé og messaði vel yfir sínum mönnum en þá var staðan orðin 31-42. Sigurður Pétursson var búinn að fara mikinn í liði Keflavíkur sem átti ekki í miklum erfiðleikum með finna körfu gulra en Grindvíkingar á móti í stökustu vandræðum með skora hinum megin. Leikhléið breytti litlu, þrátt fyrir opin skot var Grindvíkingum fyrirmunað að skora og Jóhann tók aftur leikhlé og rúmar þrjár mínútur eftir, í stöðunni 33-52. Lítið breyttist fyrri  hálfleikinn og Keflavík með örugga forystu, 35-57. 57 stig fengin á sig segir kannski bara alla söguna. Hjá Keflavík voru Remy Martin og Sigurður Pétursson atkvæðamestir í stigaskoruninni, Remy með 18 stig og Sigurður með 21 stig. Enginn hjá gulum kominn í tveggja stiga tölu, Basile með 9 stig og Deandre Kane með 8.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það sama var uppi á teningnum í upphafi seinni hálfleiks, þriggja stiga skotsýning Keflvíkinga hélt áfram og fljótlega var munurinn kominn upp í 30 stig og ljóst ef ekki mikið myndi gerast, að þessi leikur væri búinn. Grindavík klóraði þó aðeins í bakkann og munaði 22 stigum fyrir lokafjórðunginn, 64-86.

Grindvíkingar sýndu lit fljótlega í fjórða leikhluta en þá snöggfauk í Val Orra, þurfti að halda honum í burtu frá Keflvíkingnum Jaka Brodnik en Valur vildi meina að Jaka hefði viljandi sett olnboga sinn í sig. Dómararnir þurftu að skoða atvikið í sjónvarpsskjá en aðhöfðust ekkert frekar. Það gerðist ekki meira markvert í leiknum sem endaði með öruggum sigri Keflvíkinga, 82-111.

Remy Martin var frábær hjá Keflavík, setti 32 stig og gaf 6 stoðsendingar. Sigurður slakaði sér aðeins í seinni hálfleik, endaði með 26 og tveir leikmenn voru með 18 stig, Jaka Brodnik og Marek Dolezaj.

Hjá Grindavík var fátt um fína drætti. Deandre Kane var stigahæstur með 23 stig en það hlýtur að vera áhyggjuefni hversu fljótt hann hengir haus. Í viðtali eftir leikinn sagði Sigurður Pétursson hjá Keflavík, að hann vissi nákvæmlega hvernig hann myndi bregðast við mótlæti. Basile var með 18 stig og tveir voru með 12 stig, Óli Ól og Daniel Mortensen.

Sigmundur Herbertsson og Eggert Aðalsteinsson, tveir af dómurum leiksins skoða atvikið milli Vals og Jaka Brodnik.