Keflvíkingar ræða við aðra aðila-Guðjón þó ekki úti úr myndinni
Keflvíkingar hafa hafið viðræður við aðra aðila en Guðjón Þórðarson um þjálfun knattspyrnuliðs félagsins eftir að frestur sem Guðjón fékk til að svara tilboði þeira rann út í vikunni. Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildarinnar, segir þó ekkert ákveðið í þeim málum enn. „Við byrjum að ræða við aðra aðila í dag. Við höfum ekki slitið samningarviðræðum við Guðjón formlega, en reiknum hins vegar ekki sérstaklega með honum.“
Rúnar bætti því við að auðvitað væru þessar tafir bagalegar og væri ekki laust við að nokkur upplausn skapaðist, m.a. hvað varðar leikmannamál, auk þess sem ástandið væri ekki gott fyrir móralinn í hópnum.
„Við höfum samt engar áhyggjur af þessum málum og stefnum að því að klára þessi mál fyrir helgina.“
Í umfjöllun Víkurfrétta um málið í síðustu viku ýjaði heimildarmaður blaðsins að því að sú ákvörðun að önnur lið en Keflavík og Njarðvík fengju ekki lengur æfingartíma í Reykjaneshöll stafaði að nokkru leyti af því að Grindvíkingar hefðu fengið Milan Jankovic, þáverandi þjálfara Keflvíkinga til sín. Gunnar Oddson, formaður Menningar- íþrótta og tómstundaráðs Reykjanesbæjar, vill hins vegar taka fram að ekkert er hæft í þeirri fullyrðingu.