Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar ósigraðir heima!
Miðvikudagur 13. febrúar 2008 kl. 22:00

Keflvíkingar ósigraðir heima!

Valur gerði í kvöld heiðarlega tilraun til þess að binda enda á heimaleikjasigurgöngu Keflavíkur í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik. Eftir frábæran upphafsleik gáfu Valskonur eftir og Keflvíkingar hertu róðurinn í vörninni. Upp úr því kom spennandi leikur sem Keflavík vann á endanum 93-84 þar sem TaKesha Watson fór á kostum í síðari hálfleik í liði Keflavíkur. Sem fyrr eru Keflvíkingar á toppi deildarinnar og nú með 32 stig, Grindavík með 30 og KR 28. Valskonur berjast hart um sæti í úrslitakeppninni en eftir tap kvöldsins blæs ekki byrlega fyrir stelpurnar af Hlíðarenda.

Gestalið Vals lék við hvern sinn fingur í fyrsta leikhluta og komust í 4-13 og bættu í með því að komast í 7-22 gegn hriplekri Keflavíkurvörninni. Jón Halldór Eðvaldsson var allt annað en sáttur á hliðarlínunni hjá Keflavík og skipti oft litum yfir slakri frammistöðu sinna leikmanna. Þegar 2.30 mínútur voru til loka fyrsta leikhluta tóku Keflvíkingar leikhlé og náðu loks að finna sinn leik. Á þessum skamma tíma tókst heimakonum að saxa á forskot Vals úr 11-26 í 20-31 og þannig stóðu leikar fyrir annan leikhluta.

Susanne Biemer kom fersk inn af varamannabekk Keflavíkur og við innkomu hennar virtist Keflavíkurvörnin fá aukið sjálfstraust. Keflvíkingar fóru að pressa á Val út um allan völl og áttu gestirnir í mesta basli með að leysa úr pressunni. Keflavík gerði 11 fyrstu stigin í öðrum leikhluta og jöfnuðu metin í 31-31 með þriggja stiga körfu frá TaKeshu Watson. Óhætt er að segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið sveiflukenndur en Valskonur hertu róðurinn að nýju og voru 41-47 yfir þegar flautað var til leikhlés.

TaKesha Watson var með 11 stig í hálfleik fyrir Keflavík og Pálína Gunnlaugsdóttir komin með 3 villur í liði heimakvenna. Hjá Val var Molly Peterman komin með 17 stig í hálfleik og 3 villur.

Keflvíkingar réðu lögum og lofum í þriðja leikhluta þar sem Watson tók liðsfélaga sína á herðarnar og bar þær nánast ein síns liðs í gegnum leikhlutann. Watson gerði 19 stig í leikhlutanum og með tveimur vel tímasettum þriggja stiga körfum í röð frá Hrönn Þorgrímsdóttur breyttu Keflvíkingar stöðunni í 67-61 og lauk þriðja leikhluta í stöðunni 72-65 fyrir Keflavík.

Þriðji leikhluti fór 31-18 fyrir Keflavík en Valskonur voru samt ekki af baki dottnar þrátt fyrir að gera hver mistökin á fætur öðru.

Þegar tæpar sjö mínútur voru til leiksloka komu Signý Hermannsdóttir og Tinna B. Sigmundsdóttir að nýju inn í lið Vals sem hóf að sækja stíft á Keflavík. Molly Peterman gerði 6 stig í röð fyrir Val og minnkaði muninn í 78-75 og töluverð spenna farin að færast í leikinn.

Nokkuð jafnt var á með liðunum uns TaKesha Watson tók málin enn á ný í sínar hendur og setti niður eina mikilvægustu körfu leiksins. Með þriggja stiga körfu þegar 1.25 mínúta var til leiksloka kom Watson Keflavík í 85-80 og það reyndist vítamínssprautan sem Keflavík þurfti á að halda og kláruðu þær leikinn örugglega 93-84.

Watson átti stórleik fyrir Keflavík í kvöld með 38 stig og 5 stolna bolta en henni næst kom Margrét Kara Sturludóttir með 13 stig, 12 fráköst, 7 stolna bolta og 4 stoðsendingar.

Molly Peterman átti fínan dag í liði Vals með 34 stig, 7 fráköst, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta en hún tapaði 9 boltum í kvöld. Hafdís Helgadóttir gerði 17 stig og tók 8 fráköst fyrir Val og Signý Hermannsdóttir skoraði 16 stig, tók 10 fráköst og varði 8 skot og var mikil ógn inni í teig.

Með sigri kvöldsins eru Keflvíkingar enn ósigraðir á heimavelli og ljóst að þær ætla sér að halda efsta sætinu í deildinni enda vitað að stigin eru ekki auðsótt í Sláturhúsið.

Tölfræði leiksins

[email protected]


Myndir: Efri mynd, TaKesha Watson sækir að körfu Vals. Neðri mynd, Hrönn Þorgrímsdóttir í baráttunni í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024