Keflvíkingar og Valsmenn skildu jafnir í hörkuleik
Keflvíkingar og Valsmenn mættust í bráðfjörugum leik í Reykjaneshöllinni í gærkvöldi. Leikurinn var hluti af 4. umferð riðlakeppni Lengjubikarsins en liðin skiptu með sér stigunum í 3-3 jafntefli.
Leikurinn var ekki nema 10 mínútna gamall þegar Sindri Snær Magnússon vann boltann djúpt á vallarhelmingi Valsmanna og þakkaði fyrir sig með stórbrotnu marki úr þrumuskoti utan teigs sem hafnaði ofarlega í fjærhorninu. Glæsilegt mark. Valsmenn létu ekki deigann síga og 2 mörk á fimm mínútna kafla seint í fyrri hálfleik komu þeim yfir en það voru þeir Haukur Páll Sigurðsson og Andri Fannar Stefánsson sem að skoruðu mörk gestanna. Áður en flautað var til leikhlés höfðu heimamenn þó jafnað með skallamarki af stuttu færi frá Herði Sveinssyni eftir að Anton Freyr Hauksson hafði brunað upp hægri vænginn og sent glæsilega og hnitmiðaða sendingu á kollinn á Herði sem gat lítið annað en skorað.
Sama fjörið var uppi á teningnum í síðari hálfleik en liðin skoruðu sitthvort markið. Það fyrra gerðu Valsmenn á 60. mínútu þegar Andri Adolphsson kom þeim yfir. Á 82. mínútu leiksins lyfti Sigurbergur Elísson sér svo manna hæst í teignum og skallaði inn sendingu Hólmars Rúnarssonar.
Eftir leikinn sitja Keflvíkingar sem fyrr í 2. sæti með 7 stig en Valsmenn eru í 4. sæti með 5 stig og eiga leik til góða eins og öll liðin í riðlinum en Keflvíkingar eru eina liðið sem hefur spilað 4 leiki hingað til.
Næsti leikur Keflvavíkur í Lengjubikarnum er gegn liði Hauka laugardaginn 14. mars í Reykjaneshöllinni.