Keflvíkingar miklu betri en Valsmenn - unnu öruggan 3:0 sigur
„Ég er mjög ánægður með strákana. Þeir léku vel og hugarfarið var frábært, allt annað en í Fylkisleiknum og þetta var góður sigur og mikilvægur eftir tapið í Árbænum,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga kampakátur eftir öruggan 3:0 sigur á Valsmönnum í Pepsi deildinni í knattspyrnu á Sparisjóðsvellinum í kvöld.
Hörður Sveinsson skoraði tvö mörk fyrir heimamenn. Hann var í fremstu víglínu með Hauki Inga Guðnasyni og áttu báðir fanta fínan leik. Hörður nýtti færin sín vel en Haukur Ingi ásamt Simun Samuelssyni voru mikið með boltann. Simun tók við stöðu fyrirliðans, Hólmars Arnar Rúnarssonar á miðjunni og gerði það frábærlega. Haukur Ingi var stórhættulegur í sókninni með hraða sínum og var óheppinn að skora ekki því hann átti að minnsta kosti tvö dauðafæri sem fóru forgörðum. Hann lagði upp þriðja markið í leiknum þegar hann gaf á Hörð sem renndi boltanum í hornið og setti naglann í kistu Híðarendadrengja. Hörður skoraði annað mark Keflavíkur en hann fékk boltann inn í teig af varnarmanni Vals eftir að Simun hafði gefið boltann frá hægri kantinum. Fyrirliðinn, Guðjón Árni Antóníusson skoraði fyrsta mark Keflavíkur eftir sjö mínútur. Hann skallaði boltann eftir sendingu Simuns sem eins og fyrr segir var mikið í boltann og lagði upp mörg marktækifæri.
„Ég er ánægður með okkar leik. Það var gaman að fara í stöðuna hans Bóa þó það sé mjög slæmt að missa hann því drengurinn er frábær leikmaður. Ég geri bara eins og þjálfarinn segir mér að gera. Ég er orkumikill leikmaður og get verið mikið á ferðinni. Okkur tókst að skapa okkur mörg færi og áttum þennan sigur skilið,“ sagði færeyski Keflvíkingurinn.
Kristján þjálfari sagði að það hefði verið ákveðið að stilla Simun í stöðu Hólmars og setja Magnús Þorsteinsson á hægri kantinn þar sem Simun er vanur að vera. „Þetta gaf miðjunni sóknarþunga og við mátum það þannig í þessum leik að þessi uppstilling væri góð og það kom á daginn,“ sagði Kristján.
Keflvíkingar þurftu að endurnýja miðvarðapar og markmann fyrir þessa leiktíð og það hefur tekist vel. Alan Sutej og Bjarni Holm ásamt Dananum Lasse Jörgensen hafa staðið sig mjög vel, stórir, sterkir og duglegir leikmenn og markvörðurinn virkar mjög traustur. Þessi vörn með þá Guðjón Árna og Brynjar sem bakverði hefur aðeins fengið tvö mörk á sig, bæði úr vítum.
Hólmar Örn sagði að það hafi verið erfitt að fá þær fréttir að ristin væri brotin og þurfa horfa á 6 til 8 vikna meiðslafrí. „Strákarnir stóðu sig vel í kvöld. Simun var eins og kóngur á miðjunni og það var gaman að sjá hvað þetta gekk vel. Valsmenn áttu aldrei séns,“ sagði fyrirliðinn í áhorfendastúkunni.
Í lokin komu þrír bráð efnilegir og ungir leikmenn inn á hjá Keflavík, þeir Bojan Stefán Lubicic sem er 16 ára en hann er sonur Zorans Ljubicic, fyrrverandi leikmanns Keflavíkur, og Magnús Þórir Matthíasson. Þeir komu með góða spretti og eftir leikinn sögðu sérfræðingar Stöðvar 2 sports að Bojan hafi sýnt Ronaldo spretti á vinstri kantinum. Ekki slæm ummæli. Sá þriðji var Tómas Karl Kjartansson sem leysti Brynjar af í vinstri bakverðinum.
Miðað við miklar breytingar á liðinu frá því í fyrra þá hafa Keflvíkingar sýnt að þeir geta verið í titilbaráttunni og ætla sér það greinilega. Nýir leikmenn auk þeirra sem nefndir hafa verið hér að framan hafa komið sterkir inn í liðið, má þar t.d. nefna Jón Gunnar Eysteinsson, Austfjarðarisann sem lék lítið í fyrra vegna meiðsla. Fleiri ungir leikmenn eiga vonandi eftir að fá að spreyta sig og síðan er Nicolai Jörgensen væntanlegur í hópinn eftir meiðsli. Þá er Stefán Örn Arnarson kominn í leikmannahópinn en hann lék með Keflavík 2007.
Bjarni Holm í baráttu í vörninni gegn Valsmanni.
Keflvíkingar fögnuðu með Puma sveitinni í leikslok eftir frækinn sigur.
Kristján Guðmundsson hlustaði á Puma sveitina syngja: „Við viljum Kristján sem forseta“.
Texti og viðtöl: Páll Ketilsson.
Myndir: Páll Orri Pálsson og Hilmar Bragi Bárðarson.