Keflvíkingar með fyrstu stigin á útivelli - 2-2 á Akranesi
Keflvíkingar sóttu sín fyrstu stig á útivelli á tímabilinu í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu þegar þeir gerðu 2-2 jafntefli við Skagamenn í gærkvöldi.
Keflvíkingar voru hægir í gang og það nýttu heimamenn sér og náðu forystu á 12. Mínútu. Keflvíkingar sóttu stíft eftir markið en fengu óvænt annað mark í andlitið á 29.mínútu og Skagamenn komnir með tveggja marka forskot. Keflvíkingar voru að leika miklu betur, héldu boltanum vel og gerðu harða hríð að marki Skagamanna. Það endaði með fyrra marki Keflavíkur sem kom á 34. mínútu þegar hinn bandaríski Christian Volesky gerði sitt fyrsta mark með Keflavík. Hann fylgdi boltanum vel eftir að markvörður ÍA hafði varið gott skot Joey Gibbs úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs eftir brot á Davíð Snær Jóhannssyni og skoraði af stuttu færi. Magnús Þór Magnússon, fyrirliði Keflvíkinga skoraði svo jöfnunarmark liðsins á 51. mínútu þegar hann hamraði boltann í netið með glæsilegum skalla, eftir hornspyrnu Ingimundar Arons Magnússonar.
Keflvíkingar voru áfram mun meira með boltann og reyndu hvað eftir annað að herja á mark heimamanna en Skagamenn áttu líka hættulegar sóknir, sérstaklega eftir löng innköst inn í vítateig gestanna. Sindri Kristinn, markvörður Keflvíkinga þurfti í tvígang að taka á honum stóra sínum og varði vel. Keflavík átti líka ágæt færi hinum meginn en ekki vildi boltinn inn. Lokastaðan því 2-2 og má sennilega telja sanngjörn úrslit þó báðir aðilar hafi eflaust talið sig geta gert betur.
Eftir leikinn eru Keflvíkingar í þriðja neðsta sæti með 10 stig, fjórum stigum meira en tvö neðstu liðin, ÍA og HK. Keflavík á þó leik inni miðað við flest liðin.
Keflvíkingar höfðu fyrir þennan leik tapað öllum fimm leikjum sínum á leiktíðinni á útivelli en fengu þarna sínu fyrstu stig. Þeir eru eflaust þokkalega sáttir eftir að hafa lent 2-0 undri. Þeir léku oft mjög skemmtilegan fótbolta. Margir leikamanna eru flinkir með boltann og margar sóknir glöddu nokkra stuðningsmenn Keflvíkinga á Skipaskaga. Það er ekki sama hægt að segja um Skagamenn. Þetta er líklega eitt slakasta lið þeirra í áraraðir og þarf örugglega mikið að gerast til að liðið dvelji ekki áfram á botninum.
Davíð Snær Jóhannsson hefur verið að finna fjölina í undanförnum leikjum. Hann var einn af betri mönnum Keflavíkur í leiknum.
Magnús Þór Magnússon skoraði glæsilegt jöfnunarmark með flottum skalla eftir hornspyrnu Ingimundar.
Hinn bandaríski Christian Volesky gerði sitt fyrsta mark með Keflavík.