Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflvíkingar með fimm stiga forystu en Grindvíkingar enn á botninum
Mánudagur 31. maí 2010 kl. 22:17

Keflvíkingar með fimm stiga forystu en Grindvíkingar enn á botninum


Keflavík sigraði Selfyssinga, 2-1, í hörku leik á Njarðtaksvellinum nú í kvöld en 1463 áhorfendur mættu á leikinn. Eftir leikinn eru Keflvíkingar með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar með 13 stig. Frammarar eru í öðru sæti með 8 stig en þeir eiga leik til góða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Leikurinn fór rólega af stað og voru Selfyssingar hressara liðið á vellinum. Gestirnir áttu fyrsta færi leiksins og kom það á 11. mínútu þegar Sævar Þór Gíslason skaut að marki Keflvíkinga af löngu færi en boltinn fór rétt framhjá. Eftir þetta fóru Keflvíkingar að eflast en það dugði þó ekki til þess að verjast sókn Selfyssinga á 20. mínútu þegar þeir komust yfir, 0-1. Þar var á ferðinni Sævar Þór Gíslason sem skaut í tómt markið eftir að Árni markvörður hafði misreiknað boltann.

Heimamenn létu markið ekki trufla sig og héldu áfram að sækja og það munaði ekki miklu að þeir hefðu jafnað fimm mínútum eftir mark Selfyssinga þegar Guðmundur Steinarsson reyndi að skrúfa boltanum upp í vinkilinn en inn vildi boltinn ekki. Paul McShane jafnaði svo metin fyrir Keflvíkinga á 32. mínútu með þrumuskoti eftir glæsilega sendingu frá Magnúsi Sverri Þorsteinssyni. Keflvíkingar reyndu að bæta við öðru marki en það tókst ekki áður en fyrri hálfleikur var allur og staðan því jöfn, 1-1.


Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik komust Keflvíkingar yfir. Markið skoraði Hörður Sveinsson eftir að hafa fylgt eftir sláarskoti Magnúsar Þorsteinssonar sem reyndi að vippa yfir Jóhann Ólaf í marki Selfyssinga, staðan því orðin 2-1 fyrir heimamönnum. Selfyssingar sættu sig greinilega ekki við að vera komnir undir og sóttu töluvert stíft að marki Keflvíkinga. Þrátt fyrir það héldu Keflvíkingar sínu striki og sóttu af sama kappi og áður og náðu að skapa sér nokkur góð færi. Þeim tókst þó ekki að koma boltanum inn þó að oft á tíðum hafi þeir verið ansi nálægt því.


Niðurstaðan var því sanngjarn 2-1 sigur Keflvíkinga sem sitja nú á toppi deildarinnar með fimm stiga forskot á Fram. Næsti leikur Keflvíkinga er gegn KS/Leiftri í VISA bikarnum á Njarðtaksvellinum á fimmtudaginn og hefst sá leikur klukkan 19:15.

Grindvíkingar mættu FH í Kaplakrikanum í kvöld þar sem þeir gulu töpuðu með einu marki, 2-1. Grindvíkingar spiluðu undir stjórn varaþjálfarans, Milan Stefán Jankovic, þar sem nýi þjálfarinn þeirra, Ólafur Örn Bjarnason, er enn í Noregi. Það er ljóst að það er erfitt verkefni sem bíður Ólafs þegar hann kemur heim en Grindvíkingar eru eftir tapið í kvöld enn stigalausir á botninum og tveim stigum á eftir Haukum sem eru í 11. sæti.


Leikurinn fór vel af stað hjá gestunum og strax á 12. mínútu kom Grétar Ólafur Hjartarson þeim gulu yfir með góðum skalla eftir glæsilega sendingu frá Tommy Nielsen. Tuttugu mínútum síðar jafnaði FH metin með skalla frá Matthíasi Vilhjálmssyni eftir að markvörðu Grindvíkinga, Rúnar Þór, hljóp langt útí teig eftir hornspyrnu frá FH. Áður en flautað var til hálfleiks bættu gestgjafarnir við öðru marki, það skoraði Atli Viðar Björnsson og FH því komið yfir, 2-1 og þannig var staðan í hálfleik.


Í byrjun síðari hálfleiks voru FH-ingar miklu sterkari og sóttu þeir stíft. Þeim tókst þó ekki að skapa sér almennileg færi. Þegar leið á leikinn fóru Grindvíkingar að sækja í sig veðrið að nýju en náðu ekki að klára þær sóknir sem þeim tókst að skapa sér. Hvorugu liði tókst að skora í hálfleiknum og því var staðan óbreytt frá fyrri hálfleik, 2-1, og enn eitt tap Grindvíkinga staðreynd. Þeir sitja enn á botni deildarinnar en næsti leikur þeirra er gegn Þór í VISA bikar karla á Grindavíkurvelli á fimmtudaginn og hefst sá leikur klukkan 19:15.

Víkurfréttamyndir / Hilmar Bragi Bárðarson