Keflvíkingar mæta Stólunum í Höllinni
Nú fyrir skömmu varð það ljóst að Keflvíkingar munu leika til úrslita í bikarkeppni karla í körfubolta þetta árið en liðið lagði KFÍ á heimavelli sínum 90-77. Keflvíkingar voru með forystu allan leikinn og sigurinn var aldrei í hættu þó svo að Ísfirðingar kæmust nokkrum sinnum nærri því að gera leikinn spennandi.
Jafnræði var með liðunum framan af en Keflvíkingar voru þó skrefinu á undan í flestum aðgerðum. Í hálfleik var munurinn 14 heimamönnum í vil. Jarryd Cole var þá kominn með 9 fráköst og var hann sérstaklega duglegur að berjast um fráköstin í sókninni. Magnús Gunnarsson leiddi sína menn áfram og tók af skarið þegar þess þurfti. Mest náðu Keflvíkingar 17 stiga forystu í fyrri hálfleik og Laugardalshöllin virtist bara rétt handan við hornið.
Ísfirðingar ætluðu hins vegar að selja sig dýrt og tóku góða rispu í 3. leikhluta og náðu að minnka muninn niður í 8 stig á tímabili. Þá tók Magnús Gunnarsson til sinna ráða og setti niður langskot og kveikti í liðinu. Keflvíkingar litu ekki í baksýnisspegilinn eftir það og lönduðu þægilegum sigri. Þeir eru þá komnir í bikarúrslit eftir 6 ára bið, en það þykir býsna langt fyrir körfuknattleiksunnendur í Bítlabænum.
Hjá Keflvíkingum var Magnús góður að vanda en Jarryd Cole var mikilvægur undir körfunni og átti flottan leik. Valur Orri Valsson fer vaxandi í ábyrgðarmeira hlutverki sem leikstjórnandi Keflvíkinga númer 1 og átti hann góðan leik þar sem hann leitaði félaga sína vel uppi. Annar var fátt um fína drætti í leiknum ef satt skal segja en Keflvíkingar halda þrátt fyrir það glaðir og kátir í Höllina frægu.
Stigin:
Keflavík-KFÍ 90-77 (24-19, 25-16, 22-22, 19-20)
Keflavík: Magnús Þór Gunnarsson 25/6 fráköst, Charles Michael Parker 20/6 fráköst, Jarryd Cole 14/17 fráköst, Valur Orri Valsson 13/4 fráköst/8 stoðsendingar, Halldór Örn Halldórsson 10, Kristoffer Douse 3, Gunnar H. Stefánsson 3, Almar Stefán Guðbrandsson 2
KFÍ: Christopher Miller-Williams 24/11 fráköst, Ari Gylfason 13/5 fráköst, Edin Suljic 12/6 fráköst, Kristján Andrésson 10/5 fráköst, Craig Schoen 9/6 fráköst/6 stoðsendingar, Jón H. Baldvinsson 7/7 fráköst, Hlynur Hreinsson 2
Valur Orri var drjúgur á þeim 32 mínútum sem hann lék í kvöld
VFMyndir: EJS/POP