Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar lögðu KR á heimavelli
Mánudagur 3. apríl 2017 kl. 21:00

Keflvíkingar lögðu KR á heimavelli

Staðan 1-1 í einvíginu

Keflvíkingar unnu gríðarlega sterkan heimasigur á KR 81:74 og jöfnuðu þannig einvígi liðanna í 1-1 í undanúrslitum Domino’s deild karla. Amin Stevens var hrikalegur fyrir Keflavík með 34 stig og 16 fráköst.

Leikurinn var fremur jafn í fyrri hálfleik en KR var þó með yfirhöndina. Keflvíkingar sneru svo dæminu við og sýndu frábæran karakter í síðari hálfleik og leyfðu Keflvíkingar aðeins níu stig í síðasta leikhluta á meðan þeir settu 21 stig. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lokakaflinn var æsispennandi og munurinn fimm stig þegar tvær mínútur voru eftir þar sem Keflvíkingar leiddu. Strax í næstu sókn skorar Jón Arnór, villa karfa góð og munurinn orðinn tvö stig. Örþreyttur Amin Stevens klikkar í næstu sókn. KR-ingar fengu svo þrjú tækifæri til þess að jafna eða komast yfir í sömu sókninni með því að rífa niður sóknarfráköst en langskot þeirra vildu ekki niður.

Amin fór svo á línuna þegar 27 sekúndur voru eftir og jók muninn í fjögur stig. Guðmundur Jónsson stal boltanum glæsilega í næstu sókn KR og gestirnir brutu því næst á Magnúsi Trausta. Honum brást ekki bogalistin og setti bæði niður. Staðan 80:74 og þakið ætlaði að rifna af Sláturhúsinu enda sigur í höfn. Hörður Axel fór svo á línuna undir lokin og sigruðu Keflvíkingar 81:74.

Keflavík-KR 81-74 (26-21, 11-25, 23-19, 21-9)

Keflavík: Amin Khalil Stevens 34/16 fráköst, Magnús Már Traustason 14/7 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 14/5 fráköst/8 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson 9, Reggie Dupree 8, Ágúst Orrason 2, Gunnar Einarsson 0, Elvar Snær Guðjónsson 0, Davíð Páll Hermannsson 0, Arnór Sveinsson 0, Kristján Örn Rúnarsson 0, Arnór Ingi Ingvason 0.

KR: Jón Arnór Stefánsson 14/4 fráköst/5 stoðsendingar, Philip Alawoya 14/5 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 12/8 fráköst/5 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 9/4 fráköst, Kristófer Acox 9/5 fráköst, Darri Hilmarsson 9/5 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 6/5 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 1, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Arnór Hermannsson 0, Sigvaldi Eggertsson 0, Orri Hilmarsson 0.