Keflvíkingar lögðu KR á heimavelli
Staðan 1-1 í einvíginu
Keflvíkingar unnu gríðarlega sterkan heimasigur á KR 81:74 og jöfnuðu þannig einvígi liðanna í 1-1 í undanúrslitum Domino’s deild karla. Amin Stevens var hrikalegur fyrir Keflavík með 34 stig og 16 fráköst.
Leikurinn var fremur jafn í fyrri hálfleik en KR var þó með yfirhöndina. Keflvíkingar sneru svo dæminu við og sýndu frábæran karakter í síðari hálfleik og leyfðu Keflvíkingar aðeins níu stig í síðasta leikhluta á meðan þeir settu 21 stig.
Lokakaflinn var æsispennandi og munurinn fimm stig þegar tvær mínútur voru eftir þar sem Keflvíkingar leiddu. Strax í næstu sókn skorar Jón Arnór, villa karfa góð og munurinn orðinn tvö stig. Örþreyttur Amin Stevens klikkar í næstu sókn. KR-ingar fengu svo þrjú tækifæri til þess að jafna eða komast yfir í sömu sókninni með því að rífa niður sóknarfráköst en langskot þeirra vildu ekki niður.
Amin fór svo á línuna þegar 27 sekúndur voru eftir og jók muninn í fjögur stig. Guðmundur Jónsson stal boltanum glæsilega í næstu sókn KR og gestirnir brutu því næst á Magnúsi Trausta. Honum brást ekki bogalistin og setti bæði niður. Staðan 80:74 og þakið ætlaði að rifna af Sláturhúsinu enda sigur í höfn. Hörður Axel fór svo á línuna undir lokin og sigruðu Keflvíkingar 81:74.