Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar komnir í fjögurra liða í Domino's
Hörður Axel Vilhjálmsson keyrði sína menn í gang í lokin. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 23. maí 2021 kl. 00:18

Keflvíkingar komnir í fjögurra liða í Domino's

Keflvíkingar tóku á móti Tindastóli í gær í þriðja leik liðanna í úrslitakeppni Domino's-deildar karla. Það voru heimamenn sem reyndust sterkari á lokasprettinum og unnu allar þrjár viðureignir liðanna. Með sigrinum er Keflavík komið áfram í fjögurra liða úrslit Domino's-deildarinnar.

Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn betur og tóku forystuna í fyrsta leikhluta. Keflvíkingar tóku við sér í stöðunni 6:12 og voru komnir í 23:18 í lok leikhlutans.

Heimamenn náðu átta stiga forystu snemma í öðrum leikhluta en þá tóku Stólarnir góða rispu og sneru taflinu sér í hag og leiddu 36:43 í hálfleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tindastóll komst í ellefu stiga forystu snemma í síðari hálfleik og Keflvíkingar eltu allan þriðja leikhlutann. Þeir náðu þó muninum niður í þrjú stig áður en honum lauk, 62:65 var staðan þegar þriðja leikhluta lauk.

Þegar fjórði leikhluti var hálfnaður höfðu gestirnir náð átta stiga forystu (73:81) en þá settu heimamenn vörnina grimmdarlega í gang og stoppuðu allar sóknaraðgerðir Stólanna. Hörður Axel stal boltanum af Stólunum og kveikti heldur betur í sínum mönnum sem tóku öll völd á vellinum.

Í stöðunni 80:83 stað Hörður boltanum öðru sinni, Keflvíkingar brunuðu fram og minnkuðu muninn í eitt stig. Þeir unnu boltann svo í næstu sókn og Calvin Burks setti niður tveggja stiga körfu auk þess sem brotið var á honum og hann fékk dæmt vítakast sem hann setti einnig niður. Staðan orðin 85:83 og hálf mínúta eftir.

Nú þurftu Stólarnir að leggja allt kapp í sóknarleikinn en voru aðeins of ákafir og fengu dæmt á sig skref. Í sókn Keflvíkinga var svo brotið á Dominykas Milka sem setti bæði vítaköstin niður og tryggði Keflavík áfram. Lokatölur 87:83.

Frammistaða Keflvíkinga: Deane Williams 24/8 fráköst, Dominykas Milka 20/8 fráköst, Calvin Burks Jr. 18/5 fráköst, Valur Orri Valsson 13, Hörður Axel Vilhjálmsson 12/5 fráköst/12 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Magnús Pétursson 0, Davíð Alexander H. Magnússon 0, Arnór Sveinsson 0, Reggie Dupree 0, Ágúst Orrason 0.

Ljósmyndari Víkurfrétta, Jóhann Páll Kristbjörnsson, var í Blue-höllinni í gær og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðar á síðunni.


Stjarnan - Grindavík 85:69

Fyrir leik Keflavíkur og Tindastóls áttust Stjarnan og Grindavík við í Garðabænum. Fyrir leikinn hafði hvort lið unnið einn leik en það voru Garðbæingar sem reyndust sterkari aðilinn í gær og leiða einvígi liðanna 2:1.
Grindavík tekur á móti Stjörnunni næstkomandi þriðjudag í fjórðu viðureign liðanna.

Það var jafnræði með liðunum í fyrsta leikhluta, liðin skiptust á forystunni en heimamenn leiddu með tveimur stigum eftir fyrsta leihluta.

Annar leikhluti hófst eins og sá fyrsti en um miðbik hans sigu Garðbæingar fram úr Grindvíkinum og leiddu með sjö stigum í hálfleik (39:32).

Stjörnumennn léku mun betur en Grindvíkingar í síðari hálfleik og náðu átján stiga forystu í þriðja leikhluta sem reyndist Grindvíkingum of stór munur til að vinna niður og enduðu leikar 85:69.

Í viðtali við vefmiðilinn Karfan.is eftir leik sagði Dagur Kár Jónsson, leikmaður Grindavíkur, að hann væri ósáttur við spilamennsku Grindvíkinga í leiknum en lofaði oddaleik.

„Ekki spurning, við komum hérna aftur og tökum oddaleikinn!“

Viðtalið við Dag má sjá með því að smella á tengilinn hér að neðan.

Frammistaða Grindvíkinga: Kristinn Pálsson 17/5 fráköst, Dagur Kár Jónsson 14/7 stoðsendingar, Joonas Jarvelainen 13/4 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 9/10 fráköst, Þorleifur Ólafsson 5, Kristófer Breki Gylfason 5, Ólafur Ólafsson 4/6 fráköst, Amenhotep Kazembe Abif 2/5 fráköst, Bragi Guðmundsson 0, Sverrir Týr Sigurðsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Jóhann Árni Ólafsson 0.

Keflavík - Tindastóll (87:83) | Úrslitakeppni Domino's-deildar karla 22. maí 2021