Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar koma pressulausir í leikinn
Laugardagur 29. september 2007 kl. 11:05

Keflvíkingar koma pressulausir í leikinn

Guðjón Þórðarson og lærisveinar hans hjá ÍA verða í eldlínunni í dag þegar síðasta umferð Landsbankadeildarinnar fer fram. Keflavík tekur á móti Skagamönnum kl. 14:00 á Keflavíkurvelli þar sem liðin mætast í fyrsta sinn síðan Bjarni Guðjónsson skoraði markið umdeilda uppi á Skipaskaga í sumar. Síðan þá hafa Keflvíkingar ekki unnið leik. Guðjón sagði í samtali við Víkurfréttir að hann hefði skýringu á slæmu gengi Keflavíkur síðan liðin mættust á Akranesi fyrr í sumar en að hann myndi ekki uppljóstra hver sú skýring væri því hann fengi jú greitt fyrir að vera þjálfari Akraness, ekki Keflavíkur.

 

Telur þú að fyrri leikur liðanna í sumar muni hafa mikil áhrif á leikinn í dag?

Ég held að þessi leikur verði eins og venjulegur fótboltaleikur og hef ekki trú á öðru. Þannig verður það af okkar hálfu og frá Keflavík, ég á ekki von á öðru. Keflavík tók ákvörðun um það fyrir löngu hvernig þeir ætla að halda á sínum málum og seldu menn þegar titlar voru ekki inni í myndinni og sú stefna var vel skiljanleg. Við sem slíkir höfum kannski komið á óvart í þessu móti og komnir fram úr þeim væntingum sem við og aðrir gerðum til okkar. Annars hef ég litlar áhyggjur af því að fyrri leikurinn hafi áhrif í dag.

 

Hvernig sérð þú leikinn spilast? Verður hann grófur?

Ég býst ekki við því að leikurinn verði grófur. Dómarar og aðstoðardómarar sjá um knattspyrnulögin og ef menn stíga út fyrir þau vita þeir hverjar refsingarnar verða. Ég hef trú á því að allir nálgist þennan fótboltaleik með það í huga að sýna hvað þeir geta.

 

Samskipti þín og Keflavíkur komust í hámæli um árið, spilar það eitthvað inn í þá spennu sem virðist ríkja á milli liðanna?

Einhver spenna var nú þarna í fyrra og þar var ég hvergi nálægt svo að ég tel að svo sé ekki. Það er í það minnsta ekki minn skilningur. Ég þekki marga leikmenn í Keflavíkurliðinu og margir hverjir eru fínir drengir og hafa staðið sig mjög vel. Fyrir mér er það aðalatriðið. Ég átti fínan tíma með leikmönnunum í Keflavík þó svo útkoman hafi verið þannig að samstarfið yrði ekki lengra og ég fer ekkert nánar út í það frekar þar sem það kom allt fram á sínum tíma.

Það getur verið að einhver hafi aðra mynd af þessu og sjálfsagt sjá menn þetta í sitthvoru ljósinu en staðan var einfaldlega sú að ekki var hægt að vera í samstarfi lengur þegar ég var í Keflavík. Í fótboltanum er það þannig að menn eru að koma og fara. Menn vinna saman í ákveðinn tíma og svo skipta leiðir. Að menn séu í óvild er barnaskapur og sýnir að þeir eiga mikið eftir í þroskanum. Hið sama gildir fyrir leikmenn ef þeir ætla eitthvað að láta fyrri leik liðanna trufla sig.

 

Síðan liðin mættust í leiknum eftirminnilega á Akranesi hefur Keflvíkingum ekki tekist að landa sigri. Getur verið að sá leikur hafi setið svona eftir í Keflvíkingum?

Ef menn eru að leitast eftir tengingu þarna á milli þá er verið að finna til afsökun sem er óraunhæf. Spurningin sem slík virðist vera föst í höfði fjölmiðlamanna, eins og þér, og sem slík er hún mjög barnaleg. Ef menn tapa leik og ráða ekki við sig eftir það þá er vandi á höndum. Heldur þú t.d. að það hafi verið uppbyggilegt fyrir okkur að tapa gegn HK? Skýringin á vanda Keflavíkur er allt önnur en leikurinn uppi á Skaga.

 

Hver er þá skýringin?

Ég er með hana á reiðum höndum en Keflavík er með mann á launum við að leysa úr þessu. Skýringar á borð við þessa kosta. Þetta er okkar starf.

 

Hvað finnst þér um að Kristinn Jakobsson dæmi leikinn?

Eina sem ég tek eftir er að allir svokölluðu stóru dómararnir eru úti að dæma í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem ég gái hverjir eru að dæma leikinn sem ég er að fara að spila. Ég skoða þetta aldrei fyrir leik heldur sé það bara á vellinum hverjir koma. Ég hef enga skoðun á því að Kristinn dæmi leikinn í dag. Hann er stöðugur dómari.

 

Nú hefur Keflavík selt frá sér lykilleikmenn og aðrir sterkir í þeirra röðum eru frá vegna meiðsla. Á þetta ekki að vera létt verk fyrir Skagamenn á Keflavíkurvelli í dag?

Við ætlum að reyna að vinna þennan leik, það er engin launung. Hið sama er uppi á teningnum hjá Keflavík. Þeir munu tefla fram 11 leikmönnum sem allir vilja sýna og sanna að þeir eigi heima í Keflavíkurliðinu og þ.a.l. eiga þeir eftir að vilja að standa sig vel.

Við erum að reyna að leika agaðan bolta og það hefur á köflum komið smá hiksti í okkar leik en heilt yfir hefur þetta gengið betur en ég átti von á. Það er enginn á Skaganum sem á von á léttum leik í dag. Keflavík og svo Breiðablik hafa ekki að neinu að keppa í dag svo Keflvíkingar koma algerlega pressulausir í leikinn gegn okkur sem þýðir að þeir geta leyft sér trix og stæla sem þeir myndu ekki gera undir venjulegum kringumstæðum.

Mínir menn vita að ef við vinnum leikinn erum við klárir með Intertotosæti og flestir reikna með sigri FH í bikarnum. Ef svo verður erum við með UEFA sæti og það er mikil spenna í okkar röðum að ná því. Sem er nokkuð lengra en menn áttu von á.

 

Leikur Keflavíkur og ÍA hefst kl. 14:00 á Keflavíkurvelli í dag. Rétt fyrir hádegi munu stuðningsmannasveitir liðanna hittast á Yello við Hafnargötu og hita upp fyrir leikinn og síðan verður gengið fylktu liði á völlinn. Fólk er hvatt til að fjölmenna á þessa síðustu umferð Landsbankadeildarinnar og styðja rækilega við bakið á sínu liði.

 

[email protected]

 

Mynd: www.fotbolti.netGuðjón Þórðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024