Keflvíkingar keppa í Norðurlandamóti félagsliða
Nordic Challence, Norðurlandamót félagsliða í körfuknattleik, hefst í Osló á morgun. Keflvíkingum var boðin þátttaka fyrir Íslands hönd og héldu þeir af landi brott í morgun.
Samkvæmt frétt á heimasíðu Keflavíkur er þetta í fyrsta skiptið sem Norðurlandamót félagsliða er haldið, en slíkt hefur verið á dagskránni hjá körfuknattleiksforystunni á Norðurlöndum í mörg ár.
Mótið verður leikið í Rykkinnhallen í Osló og stendur fram á sunnudag. Auk Keflavíkur mæta til leiks meistarar Noregs, Bærum Verk Jets og meistarar Finlands, Kouvot. Norrköping Dolphins leika fyrir hönd Svíþjóðar, en þeir urðu í öðru sæti sænsku deildarinnar í fyrra. Dönsku meistararnir, Bakken Bears (mótherjar Keflvíkinga í Evrópukeppninni í haust) boðuðu forföll sökum þess að þeir halda eigið mót um helgina.
Fyrsti leikur Keflvíkinga er gegn heimamönnum í Bærum Verk Jets og verður leikurinn sýndur beint í sjónvarpinu í Noregi. Hægt er að fylgjast með framgangi mála og stöðu leikja á heimasíðu mótsins.
VF-mynd úr evrópuleik Keflavíkur og Dijon í fyrravetur