Keflvíkingar kafsigldir í vesturbænum
Keflavík tapaði stórt fyrir KR í DHL-höllinni í vesturbænum í kvöld í annarri umferð Iceland Express deildar karla. Lokatölur urðu 93-72 fyrir heimamenn sem voru betri á öllum sviðum körfuboltans í kvöld. Vel var mætt í DHL-höllina og mikil stemning meðal áhorfenda. Tölurnar gefa þó ekki alveg rétt mynd af leiknum því Keflavík var lengst af inn í leiknum, en góður endasprettur hjá KR knúði fram 21 stig sigur.
Fyrsti leikhluti lofaði góðu. KR komst í 13-5 áður en Keflavíkingar jöfnuðu leikinn í 15-15. Heimamenn höfðu hins vegar ávallt yfirhöndina og leiddu 27-26 þegar fyrsti leikhluti var úti.
Leikurinn hafði fram að þessu verið opinn og skemmtilegur og bæði lið tilbúin að leggja allt í sölurnar. KR setti hins vegar upp stórskotasýningu í öðrum leikhluta. KR lék gríðarlega góða vörn og tóks Keflvíkingum aðeins að skora tvö stig á fyrstu fimm mínútum annars leikhluta. Það gekk hvorki né rak í sókninni, meðan KR setti niður hverja þriggja stiga körfuna af fætur annarri. Staðan í hálfleik var 55-37 og KR komið í virkilega góða stöðu fyrir seinni hálfleikin.
Keflvíkingar klóruðu í bakkann í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn minnst niður í tíu stig. KR náði hins vegar, með góðum endasprett í þriðja leikhluta, að leiða með 14 stigum fyrir síðasta leikhlutann, 74-69.
Lokaleikhlutinn var í raun leikur kattarins að músinni. Heimamenn hleyptu gestunum úr Bítlabænum ekki aftur inn í leikinn og niðurstaðan öruggur 93-72 sigur KR-inga.
Keflvíkingar áttu ekki möguleika eftir fyrsta leikhluta gegn firnasterku liði KR, sem leikur frábæra vörn, og eru með frábæra skotmenn. Atkvæðamestur í liði Keflavíkur var Gunnar Einarsson með 17 stig og Sverrir Þór Sverrisson skoraði 16. Hjá KR Jakob Örn Sigurðsson með 23 stig, Helgi Már Magnússon kom næstum er 22 stig og Jón Arnór Stefánsson skoraði 19 stig.
Keflvíkingar þurfa að bæta leik sinn mikið fyrir næsta leik sinn sem verður gegn ÍR í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ á fimmtudagskvöld.
Tölfræði
VF-MYND/JJK