Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar í fantaformi og kláruðu KR örugglega
Miðvikudagur 16. nóvember 2011 kl. 22:09

Keflvíkingar í fantaformi og kláruðu KR örugglega

Keflavík skellti sér eitt liða á toppinn í Iceland Express deild kvenna þegar uppgjör toppliðanna fór fram. KR var aldrei langt undan en þéttur varnarleikur gerði KR erfitt um vik og vann Keflavík verðskuldaðan 70-84 sigur í DHL-Höllinni í kvöld. Jaleesa Butler átti enn einn stórleikinn hjá Keflavík með 27 stig og 14 fráköst en byrjunarlið Keflavíkur skoraði öll 84 stig liðsins í leiknum. Hjá KR var Erica Prosser með 27 stig og 8 fráköst.

Keflvíkingar mættu með 2-3 svæðisvörn og svæðispressu eftir skoraða körfu en Bryndís Guðmundsdóttir er þessu öllu þaulkunn og skoraði 8 af 11 fyrstu stigum KR í leiknum. Þegar leið á leikhlutann fór vörn gestanna að þéttast. Keflvíkingar báðu um leikhlé í stöðunni 9-6 KR í vil en komu grimmar út og snéru taflinu sér í vil.

Jaleesa Butler var illviðráðanleg og skoraði 12 stig í fyrsta leikhluta. KR-ingar áttu erfiðara og erfiðara með að leysa pressuna og svo svæðisvörnina og töpuðu boltanum sex sinnum í leikhlutanum.

Birna Valgarðsdóttir breytti stöðunni svo í 16-25 með þriggja stiga körfu og lokastaðan reyndist 16-27 eftir fyrsta leikhluta. Mögnuð byrjun á leiknum hjá Íslands- og bikarmeisturum Keflavíkur sem settu stigamet á KR þetta tímabilið í DHL-Höllinni. Fyrir leikinn í kvöld hafði gestalið mest skorað 16 stig á KR í fyrsta leikhluta en Keflavík gerði gott betur með 27 stigum!

Ekkert var búið að skora í öðrum leikhluta eftir tæplega fjögurra mínútna leik! Nístingskuldi í sóknarleik beggja liða þegar Sigrún Ámundadóttir gerði fyrstu stig leikhlutans með þriggja stiga skoti og 5.50mín. til hálfleiks. Varnir beggja liða voru fínar og þvinguðu fram þónokkur mistök á báða bóga en ekkert gekk í sóknarleiknum og fór leikhlutinn 11-7 KR í vil.

Erica Prosser átti góðan sprett er hún gerði sex stig í röð fyrir KR, stal boltanum í tvígang, brunaði upp, skoraði og fékk villu að auki og hleypti nýju blóði í leik KR-inga. Staðan í leikhléi var 27-34 Keflvíkingum í vil sem voru rétt skugginn af sjálfum sér frá fyrsta leikhluta.

Margrét Kara Sturludóttir skoraði ekki stig í fyrri hálfleik og vó það þungt í herbúðum KR, Bryndís Guðmundsdóttir sem gerði 8 stig í fyrsta leikhluta skoraði ekki körfu í öðrum. Erica Prosser var með 11 stig í leikhléi hjá röndóttum en í liði Keflavíkur var Jaleesa Butler með 18 stig og 8 fráköst og Birna Valgarðsdóttir var með 8 stig og 7 fráköst.

Allt annað var að sjá til beggja liða í þriðja leikhluta, meiri hraði og meira skorað en í öðrum leikhluta. Keflvíkingar byrjuðu vel og komust í 27-40 með 6-0 áhlaupi í upphafi síðari hálfleiks en þá rönkuðu KR-ingar við sér.

Erica Prosser hélt áfram að vera helsti sóknarbroddurinn í liði KR og Helga Hallgrímsdóttir var að berjast vel í liði Keflavíkur. Prosser kom með tvo þrista í röð fyrir KR og minnkaði muninn í 49-54 en Pálína Gunnlaugsdóttir átti síðasta orðið í leikhlutanum með þrist fyrir Keflvíkinga sem leiddu 53-59 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Keflvíkingar voru ávallt með forystuna í fjórða leikhluta, röndóttar minnkuðu muninn í 56-61 en það vantaði ávallt herslumun til þess að brjóta ísinn margfræga svo Keflavík gekk á lagið og jók muninn í 56-66. Birna Valgarðsdóttir átti glimrandi dag með Keflavík og fór fremst í flokki á lokasprettinum. KR tók leikhlé í stöðunni 66-74 þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka. Keflvíkingar neituðu þeim að komast nærri og kláruðu leikinn 70-84 og fóru einar í toppsætið.

Stigaskor:

KR-Keflavík 70-84 (16-27, 11-7, 26-25, 17-25)

KR: Erica Prosser 27/4 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 12/9 fráköst/5 stolnir, Bryndís Guðmundsdóttir 12, Hafrún Hálfdánardóttir 10/5 fráköst, Margrét Kara Sturludóttir 7/13 fráköst/7 stoðsendingar/3 varin skot, Helga Einarsdóttir 2/7 fráköst, Anna María Ævarsdóttir 0, Rannveig Ólafsdóttir 0, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 0, Kristbjörg Pálsdóttir 0, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 0.

Keflavík: Jaleesa Butler 27/14 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir/8 varin skot, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 24/12 fráköst/5 stolnir, Pálína Gunnlaugsdóttir 13/11 fráköst/7 stoðsendingar, Sara Rún Hinriksdóttir 12, Helga Hallgrímsdóttir 8/6 fráköst, Lovísa Falsdóttir 0, Sandra Lind Þrastardóttir 0, Sigrún Albertsdóttir 0, Soffía Rún Skúladóttir 0, Hrund Jóhannsdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024