Keflvíkingar í bikarúrslitin
Keflvíkingar komust í gær í bikarúrslit karla í 2. flokk er þeir lögðu lið Breiðablik/Augnablik með 4 mörkum gegn 3 á heimavelli sínum.
Keflvíkingar byrjuðu af krafti og Sigurbergur Elísson setti tóninn með glæsilegu marki strax á 1. mínútu. Þegar stundarfjórðungur var liðinn hafði Arnór Ingvi Traustason bætt við öðru marki með laglegu skoti fyrir utan teig.
Gestirnir svöruðu þó að bragði með marki en leikurinn var hraður og skemmtilegur á að horfa. Daníel Gylfason kom Keflvíkingum í 3-1 eftir að markmaður gestanna gerðist sekur um mistök, staðan því 3-1 í hálfleik.
Fjörið hélt áfram í síðari hálfleik og gestirnir náðu að klóra í bakkann eftir tæplega klukkutíma leik með marki en Sigurbergur Elísson sá um að setja leikinn á ís rúmri mínútu eftir að gestirnir skoruðu og staðan 4-2 fyrir Keflvíkinga.
Þrátt fyrir að gestirnir skoruðu 10 mínútum síðar náðu Keflvíkingar að landa 4-3 sigri í fjörugum leik og eru því komnir í úrslit bikarkeppninar. Úrslitin fara fram þann 25. september.
Myndir/EJS: Á efri myndinni er Sigurbergur Elísson og að neðan má sjá Daníel Gylfason.