Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar í bikarúrslit eftir sætan sigur á Víkingum
Miðvikudagur 30. júlí 2014 kl. 23:16

Keflvíkingar í bikarúrslit eftir sætan sigur á Víkingum

Keflvíkingar í úrslit í tíunda sinn - hafa fjórum sinnum hampað titlinum.

Keflvíkingar eru komnir í úrslit Borgunarbikars karla í knattspyrnu eftir magnaðan sigur á Víkingum í vítaspyrnukeppni. Úrslitin réðust ekki fyrr en með síðustu spyrnu en þar sýndi Haraldur Guðmundsson yfirvegun og reynslu. Kristján Guðmundsson þjálfari stóð við stóru orðin en hann ábyrgðist það í samtali við VF að Keflvíkingar væru á leið í úrslit. Keflvíkingar léku vel og börðust af krafti í leiknum sem bar keim af því að allt væri undir. Leikskipulagið gekk að því er virðist fullkomlega upp en Víkingar fengu sjaldan frið til þess að athafna sig.
„Ég var búinn að lofa sigri í samtali við þig í gær og við stóðum við það,“ sagði þjálfarinn Kristján við blaðamann VF. „Þetta var góður leikur og við náðum að halda dampi í lokin. Við héldum okkur við okkar taktík, náðum að halda þeim frá hættulegum stöðum hjá markinu. Við stúderuðum Víkingsliðið vel fyrir leik og mér fannst við hafa náð að spila rétt á móti þeim. Ég var nú frekar rólegur nema þegar kom að síðustu vítaspyrnunni, þá fór allt af stað. Markmaðurinn okkar er gríðarlega góður og ofboðslega snöggur, hann stóð sig mjög vel. Hann á eftir að verða enn betri þar sem hann átti við meiðsl að stríða í júní. Annars líður mér stórkostlega, þetta er þvílík tilfinning að vera kominn í bikarúrslitaleikinn. Maður fer með þessa gleðitilfinningu inn í helgina en síðan tekur bara við kaldur raunveruleiki eftir helgi.“

Til þess að gera langa sögu stutta þá vindum við okkur beint að því safaríkasta. Eftir venjulegan leiktíma og framlengingu þar sem hart var barist var komið að vítaspyrnukeppni. Þess þurfti sennilega til þess að ylja áhorfendum á Nettóvellinum í köldum norðangarranum. Bæði lið skoruðu úr fyrstu spyrnum sínum en Víkingar klúðruðu öðru víti sínu með skoti hátt yfir. Keflvíkingar náðu 3-1 forystu þegar Elías Már skoraði örugglega úr sinni spyrnu. Jonas Sandqvist markvörður Keflvíkinga gerði sér svo lítið fyrir og varði frá besta manni Víkinga, Aroni Elísi. Glæsilega varið hjá Svíanum. Það var svo fyrirliðinn Haraldur Guðmundsson sem sendi Keflvíkinga í úrslitaleikinn sjálfan. Ótrúlega spennandi leikur og úrslitin frábær fyrir Keflvíkinga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Löngu ákveðið að Haraldur tæki síðasta vítið

Í síðustu spyrnunni setti Haraldur boltann upp í samskeytin þegar allt var undir eins og ekkert væri sjálfsagðara. Varstu ekkert stressaður? „Nei ég get ekki sagt það. Það var búið að ákveða fyrir leikinn að ef það kæmi að vítaspyrnu myndi ég taka lokaskotið. Við æfðum þær í gær og það eru allir tilbúnir að taka víti. Það var ógeðslega gaman að vinna þetta í blálokin. Ég hef einu sinni áður spilað úrslitaleik og það var fyrir 10 árum, þegar við unnum árið 2004. Það er því kominn tími á annan bikar,“ sagði varnarmaðurinn

17 ár á milli bikarúrslitaleikja hjá Jóhanni

Reynsluboltinn hinn 36 ára gamli Jóhann B. Guðmundsson var í liðinu sem vann bikarinn árið 1997, þá 19 ára gamall. „Ég er mjög spenntur að fá að fara og taka þátt aftur í bikarúrslitaleik eftir þessi 17 ár. Ætli nokkur hafi spilað bikarúrslitaleiki sem líður svona langt á milli? Þetta er ótrúlega gaman og þvílíkt krydd í sumarið. Ég man þegar ég var ungur hvað mér fannst gaman að fá svona tækifæri og þetta er alveg jafn gaman fyrir ungu strákana okkar núna. Þessi leikur og næsti eru svo skemmtilegir, það er allt öðruvísi andrúmsloft fyrir svona leiki. Svo var frábær stemning uppi í stúku, báðu megin og það skilaði sér alveg. Svona leikir gefa okkur liðsmönnunum og stuðningsmönnunum svo mikið,“ sagði Jóhann sigurreifur að lokum.

 

 

Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði Keflavíkur tryggði sínu liði í úrslitin, sem fara fram þann 16. ágúst á Laugardalsvelli.

Jóhann Birnir Guðmundsson skorar úr fyrsta vítinu.


Leikmenn Keflavíkur fagna sigri með áhorfendum.