Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar héldu hreinu
Þriðjudagur 16. ágúst 2005 kl. 11:40

Keflvíkingar héldu hreinu

Keflvíkingar endurheimtu 3. sætið í Landsbankadeildinni í gærkvöldi þegar liðið gerði markalaust jafntefli gegn Valsmönnum á Hlíðarenda. Atli Sveinn Þórarinsson skoraði fyrir Valsmenn en það mark var dæmt af vegna rangstöðu. Valsmenn eru sem fyrr í 2. sæti deildarinnar með 31 stig. Þetta er í fyrsta skiptið í rúmt ár sem Keflavík heldur hreinu í deildinni.

Jafnt var á með liðunum framan af leik en fyrsta marktækifærið áttu Keflvíkingar á 9. mínútu leiksins þegar Branislav Milicevic skaut fram hjá marki Valsmanna.

Skömmu síðar fengu Valsmenn aukaspyrnu sem Guðmundur Benediktsson tók en hann sendi knöttinn beint á kollinn á Grétari Sigurðssyni sem skallaði rétt yfir markið.

Guðmundur Steinarsson átti fast skot í slá á 30. mínútu fyrir Keflavík og mark var dæmt af Valsmönnum á 36. mínútu leiksins vegna rangstöðu. Liðin gengu því jöfn til hálfleiks þó færin hefðu ekki látið á sér standa.

Heimamenn pressuðu vel á Keflavík í upphafi seinni hálfleiks og færðu leik sinn jafnt og þétt framar á völlinn. Baldur Aðalsteinsson fór mikinn í liði Vals og á 53. mínútu lék hann framhjá hverjum varnarmanni Keflavíkur af öðrum og skaut að marki en Ómar varði vel.

Á 66. mínútu voru Keflvíkingar í sókn og barst boltinn til Harðar Sveinssonar sem var einn á móti Kjartani Sturlusyni og reyndi Hörður vinstri fótar skot sem hafnaði í hliðarnetinu af skömmu færi.

Þrátt fyrir harðan atgang heimamanna áttu Keflvíkingar hættulegar skyndisóknir en hvorugu liðinu tókst að skora og markalaust jafntefli því niðurstaðan. Jónas Guðni Sævarsson var allt í öllu hjá Keflvíkingum á miðjunni og var einn þeirra besti leikmaður í gær.

„Við vorum ekkert búnir að gleyma fyrri leiknum gegn Val og ætluðum okkur að gera betur í gær en þegar liðin mættust síðast,“ sagði Jónas Guðni í samtali við Víkurfréttir í dag. Þetta var baráttuleikur og bæði lið kannski þreytt eftir álagið síðustu daga, við áttum ágætisleik í Þýskalandi varnarlega séð og við tókum það með okkur á Hlíðarenda og náðum að halda hreinu sem var mjög gott,“ sagði Jónas en þetta er fyrsti deildarleikur Keflavíkur síðan í júní 2004 sem liðið heldur hreinu. Næsti leikur er gegn Skagamönnum á sunnudag en ÍA er aðeins stigi á eftir Keflavík. „Það er nauðsynlegt að vinna leikinn gegn Skaganum því þeir sækja hart að okkur sem og næstu lið fyrir neðan þá. Svo er markmiðið bara að taka hvern leik fyrir sig, vonandi náum við að halda hreinu hér heima gegn Mainz og setja 1-2 mörk á þá. Varðandi deildina þá er það nauðsynlegt fyrir okkur að ná í það minnsta 7 stigum úr næstu 4 leikjum,“ sagði Jónas að lokum.

Staðan í deildinni

VF-myndir/ Jón Björn, [email protected]

 

 

 

 


 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024