Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar hefja titilvörnina í dag
Laugardagur 24. mars 2012 kl. 12:31

Keflvíkingar hefja titilvörnina í dag

Núna klukkan 16:30 hefja Keflavíkurstúlkur leik í úrslitakeppni Iceland Express-deildinni í körfubolta þegar Haukar koma í heimsókn í Sláturhúsið við Sunnubraut. Keflavík landaði deildarmeistaratitlinum á dögunum og Birna Valgarðsdóttir fyrirliði liðsins er orðin verulega spennt fyrir rimmunni gegn Haukum.

„Þetta leggst mjög vel í mig og ég býst við hörku úrslitakeppni,“ sagði Birna Valgarðsdóttir fyrirliði Keflavíkur í samtali við Víkurfréttir en úrslitakeppni Iceland Express-deildar kvenna hefst á morgun. Keflvíkingar leika hins vegar á laugardaginn gegn Haukum í undanúrslitum og Birna er á því að þar verði ekkert gefins.

„Þessi fjögur lið sem eru að berjast um titilinn eru frekar jöfn og þetta verður bara tóm hamingja. Maður þarf að hafa virkilega fyrir þessu í ár en þetta verður örugglega mjög skemmtileg úrslitakeppni.“ Keflvíkingar eru þessa stundina á fullu í undirbúningi fyrir fyrsta leikinn gegn Haukum og það gengur allt að óskum enn sem komið er að sögn Birnu. „Það er komin tilhlökkun í hópinn þrátt fyrir smá lægð á dögunum. Ég held að gleðin sé komin í liðið og nú er bara að setja í fimmta gír, enda gengur ekkert annað þegar í úrslitakeppnina er komið.“

Birna hefur tekið þátt í ófáum úrslitakeppnum og hún segist komast í allt annan ham þegar þessi tími árs gengur í garð. „Það er erfitt að útskýra það en maður fer í allt annan ham. Nú þýðir ekkert að hengja haus og nú fer bara allt á fulla ferð,“ en Birna sem er fyrirliði og með gríðarlega reynslu mun væntanlega miðla af reynslu sinni til ungu leikmanna liðsins sem margar hverjar eru að stíga sín fyrstu skref í úrslitakeppni. „Maður reynir að segja þeim að vera ekkert að stressa sig og halda bara áfram að gera þá hluti sem þær eru búnar að gera svo vel í vetur. Þetta eru bara venjulegir körfuboltaleikir þótt pressan sé örlítið meiri.“

Birna segir að Haukaliðið sé sterkt á mörgum vígstöðum og þær muni alls ekkert gefa neitt í þessari rimmu. „Við verðum að vera á varðbergi alls staðar en þær eru hættulegar fyrir utan og eru með góðar skyttur eins og Írisi. Svo eru leikstjórnandinn og nýi erlendi leikmaðurinn sterkir leikmenn og þær munu setja í fluggírinn líka.“

Birna hefur trú á því að fólk mæti á fyrsta heimaleikinn og að eintóm gleði og hamingja muni ríkja. En fyrst og fremst verður leikinn skemmtilegur körfubolti að hennar mati.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024