Laugardagur 5. janúar 2008 kl. 22:54
Keflvíkingar halda toppsætinu
Leikið var í Iceland Express-deild karla og kvenna í dag. Njarðvíkingar léku við Snæfellinga í Stykkishólmi en þeir töpuðu með sjö stigum, 74-67, eftir að staðan í hálfleik var 39-33. Stigahæstur hjá Njarðvík var Damon Bailey með 23 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson bætti við 18 stigum.
Keflavík vann sigur á Fjölni í Iceland Express-deild kvenna 109-77. Keflvíkingar tefldu fram nýjum leikmönnum í leiknum en Birna Valgarðsdóttir spilaði í dag og nýr leikmaður Susan Biemer lék með liðinu.
Grindvíkingar unnu Hamar 96-79 í IE-deild kvenna með 17 stigum og eru á hælum Keflvíkinga sem eru á toppi deildarinnar.
Eftir leiki dagsins í Iceland Express-deild karla eru Njarðvíkingar í 4. sæti með 14 stig eftir 12 leiki.
Í Iceland Express-deild kvenna eru Keflvíkingar á toppi deildarinnar með 22 stig en ekki langt undan eru KR-ingar og Grindvíkingar með 20 stig.
VF-mynd/Þorgils: Halldóra Andrésdóttir, leikmaður Keflavíkur, í baráttunni við Erlu Kristinsdóttur í leiknum í dag.