Keflvíkingar halda í vonina eftir langþráðan sigur
Keflavík bar sigurorð af HK í úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu á HS Orkuvellinum í dag. Fyrsti heimasigurinn í sumar og fyrsti sigur Keflvíkinga frá því í fyrstu umferð þegar þeir lögðu Fylkismenn á útivelli.
Keflvíkingar mættu ákveðnir til leiks og uppskáru víti snemma í fyrri hálfleik. Það var Nacho Heras sem steig á punktinn og skoraði örugglega til að koma Keflavík í forystu (6') en eins og oft áður í sumar héldu Keflvíkingar forystunni ekki lengi.
HK sótti hratt á vörn Keflavíkur og gestirnir jöfnuðu tveimur mínútum eftir að Keflvíkingar höfðu náð foystu (8').
Keflvíkingar voru ekki að hengja haus lengi og á 24. mínútu kom Sami Kamel heimamönnum í forystu á nýjan leik með frábæru marki. Kamel fékk boltann aðþrengdur inni í teig HK en náði að snúa sér og skjóta úr þröngri stöðu. Boltinn söng í netinu og markvörður HK hreyfði hvorki legg né lið.
Heimamönnum óx ásmegin við markið og þeir gerðust ágengir upp við mark HK. Kamel var nærri því að tvöfalda forystuna rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Keflvíkingar sóttu upp vinstri kantinn, Ísak Daði Ívarsson átti góða fyrirgjöf á fjærstöng þar sem Sami Kamel kastaði sér fram og skallaði að marki en markvörður gestanna var á tánum og náði að verja á línu.
Staðan því 2:1 í hálfleik og gestirnir hófu seinni hálfleikinn af miklum ákafa en vörn og baráttan í Keflavíkurliðinu hleypti þeim ekki upp með neitt múður.
Þegar um tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fékk Sami Kamel óvænt færi þegar markvörður HK sendi boltann í fæturna á Kamel en hann bætti fyrir mistökin með stórfínni markvörslu.
Keflvíkingar unnu sig inn í leikinn og héldu áfram að sækja að marki gestanna. Stefan Alexander Ljubicic átti gott skot af löngu færi þegar um fimmtán mínútur lifðu leiks en markvörður HK náði að reka löngutöng í boltann og skotið fór naumlega framhjá.
Heimamenn voru nær því að auka forystuna en gestirnir að jafna og þegar upp er staðið verður sigur Keflvíkinga að teljast sanngjarn. Baráttan í liðinu var til staðar og allir lögðu sig fram, fóru óhikað í alla bolta og unnu vel.
Með sigrinum eygja Keflvíkingar enn von um að halda sæti sínu í efstu deild að ári en þeir mæta Fram á útivelli næstkomandi fimmtudag.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og ræddi við Magnús Þór Magnússon, fyrirliða Keflavíkur, eftir leik. Viðtalið og myndasafn má sjá hér að neðan.