Keflvíkingar fá Fjölnismenn í heimsókn
Hamborgarar í boði fyrir leik
Keflavík og Fjölnir mætast í 6. umferð Pepsi-deildarinnar í kvöld. Leikur liðanna fer fram á Nettóvellinum í Keflavík og hefst kl. 19:15. Fyrir leikinn er Keflavík í 3. sæti deildarinnar með 10 stig en Fjölnismenn eru í 4. sæti með 9 stig. Keflvíkingar munu tendra upp í grillunum og bjóða upp á hamborgara á góðu verði fyrir leik. Kristján þjálfari mun svo mæta og ræða við stuðningsmenn 40 mínútum áður en leikur hefst.
Keflavík og Fjölnir hafa mæst fjórum sinnum í efstu deild. Heimasíða Keflavíkur rifjaði upp viðureignir liðanna. Keflavík vann tvo leikjanna, Fjölnir einn en einum leik lauk með jafntefli. Markatalan er 9-7 fyrir Keflavík. Magnús Þorsteinsson hefur skorað tvö mörk gegn Fjölni en þeir Magnús Þórir Matthíasson og Jóhann B. Guðmundsson eitt hvor.
Bikarkeppnin
Liðin hafa einu sinni mæst í bikarkeppninni en það var árið 2005. Liðin mættust þá í 32-liða úrslitum á Fjölnisvelli og vann Keflavík þar nauman 4-3 sigur. Guðmundur Steinarsson skoraði tvö mörk og þeir Hólmar Örn Rúnarsson og Stefán Örn Arnarson eitt hvor. Atli Guðnason skoraði tvö marka Fjölnis og Tómas Leifsson eitt.