Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar ekki með heppnina með sér á Akranesi
Mánudagur 21. maí 2012 kl. 00:30

Keflvíkingar ekki með heppnina með sér á Akranesi


Keflvíkingar höfðu ekki heppnina með sér á Skipaskaga þegar þeir töpuðu 3:2 fyrir heimamönnum í fjórðu umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í gær. Keflvíkingar jöfnuðu í tvígang og fengu dauðafæri til að komast í 2:3 en það tókst ekki og Skagamenn skoruðu sigurmarkið á síðustu mínútu venjulegs leiktíma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við lékum góðan fótbolta en það gaf okkur ekkert í þessum leik og það er slæmt. Við áttum skilið meira en þetta,“ sagði Zoran Ljubicic, þjálfari Keflavíkur eftir leikinn.

Skagamenn náðu forystu en Keflvíkingar fengu víti þegar langt var liðið á fyrri hálfleik sem Guðmundur Steinarsson skoraði úr af öryggi og þannig var staðan í hálfleik 1:1. Heimamenn komust í 2:1 en aftur jöfnuðu Keflvíkingar á 73. mínútu með flottu skoti frá Arnóri Ingva Traustasyni. Skömmu síðar fékk Arnór boltann fyrir fætur sér beint fyrir framan markið en á óskiljanlegan hátt tókst honum að skjóta framhjá. Grátlegt fyrir þennan unga leikmann sem hefur staðið sig mjög vel í upphafi móts og var mjög góður í þessum leik. Keflvíkingar fengu síðan ódýrt mark á sig á 90. mínútu og þurftu að bíta í það mjög svo súra epli að tapa leiknum sem þeir áttu alla möguleika á að vinna.

Keflvíkingar gáfu ekkert eftir og léku á heildina litið betri fótbolta en Skagamenn sem treystu mikið á langar spyrnur á kantana og inn í teig. Mörkin sem Keflavík fékk á sig voru í ódýrari kantinum ef svo má segja. Hlutirnir féllu með heimamönnum að þessu sinni. Arnór Ingi, Frans Elvars og Jóhann B. Guðmundsson voru bestu menn Keflavíkur.

Á efstu myndinni má sjá Guðmund Steinarsson skora örugglega úr vítinu. Hér að ofan er boltinn á leið í markið eftir bylmingsskot Arnórs Ingva nr. 17.

Í stöðunni 2:2 fékk Arnór Ingvi boltann inn í teig beint fyrir framan markið.

Arnór hittir boltann ekki nógu vel. Heimamenn horfa með angistaraugum á Keflvíkinginn í dauðafæri...

Boltinn svífur framhjá stönginni eftir skot Arnórs. Keflvíkingurinn ungi tekur um höfuð sér. Vonbrigðin leyna sér ekki. Skagamenn anda léttar.