Keflvíkingar ekki í teljandi vandræðum með Hauka
Keflvíkingar áttu ekki í teljandi vandræðum með hálffleyga Hauka í Iceland Express-deild karla í kvöld og sigruðu með 9 stiga mun á heimavelli sínum 85-79. Leikurinn var jafn og rólegur í fyrri hálfleik þar sem Charlie Parker hjá Keflvíkingum sýndi hvers hann er megnugur. Þessi leikur náði í raun aldrei miklum hæðum en það var ekkert sem kom á óvart í rauninni nema það kannski að Parker skilaði 39 framlagsstigum.
Magnús Gunanrsson, Steven Gerard, Charlie Parker, Almar Guðbrandsson og Jarryd Cole hófu leik hjá heimamönnum en Arnar Freyr Jónsson var í borgaralegum klæðum á bekk Keflvíkinga, hann hefur verið að glíma við meiðsli upp á síðkastið. Jafnræði var með liðunum allt frá því að dómarinn kastaði boltanum á loft og staðan var 14- 14 þegar 4 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Áfram var jafn og Davíð Páll Hermannsson tryggði að svo væri með því að setja flautuþrist og jafna, 20-20 í lok fyrsta leikhluta.
Charlie Parker var þá kominn með 8 stig og Jarryd Cole með 5. Hjá Haukum var Jovanni með 10 stig. Gestirnir skoruðu svo næstu 4 stig en Keflvíkingar komu jafnharðan til baka og liðin skiptust á því að hafa forystuna. Haukar voru duglegir að taka sóknarfráköst og nýji leikmaðurinn hjá Haukum Christhoper Smith byrjaði að hitna. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þá settu Keflvíkingar pressu í gang sem að skilaði sér í nokkrum stigum, heimamenn fóru því með 42-39 forystu til búningsherbergja.
Í hálfleik var Charlie Parker yfirburðarmaður á vellinum en hann var þá kominn með 19 punkta eins og Willum Þór myndi segja, auk þess var kappinn með 8 fráköst og 3 stoðsendingar. Það gera 28 framlagsstig.
Keflvíkingar byrjuðu vel eftir að hafa japlað á appelsínunum og munurinn var strax kominn í 10 stig eftir að Jarryd Cole og Gerard tóku fína rispu. Staðan var 54-45 þegar þriðji leikhluti var hálfnaður. Keflvíkingar náðu svo þægilegri forystu og leiddu með 12 stigum þegar lokaleikhlutinn var eftir. Þegar 5 mínútur voru svo eftir af leiknum virtist sem að Haukar væru að komast inn í leikinn þegar munurinn fór niður í 6 stig og byrinn var í bakið á Hafnfirðingunum. Magnús Gunnarsson setti þá niður þrist sem að slökkti í vonarneista þeirra og Keflvíkingar sigldu þessu örugglega í höfn.
Charlie Parker kitlaði þrennuna en hann endaði leikinn með 24 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar. Jarryd Cole var með þétta tvennu, eða 15 stig og 13 fráköst. Magnús Gunnarsson var með 12 stig og 6 stoðsendingar en Keflvíkingar leyfðu öllum leikmönnum sínum að spreyta sig í kvöld.
Haukar voru í raun aldrei líklegir til þess að stríða Keflvíkingum í kvöld og Keflvíkingar létu bara malla í hlutlausum allan leikinn.