Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar ekki að kasta inn handklæðinu
Dæmigerð mynd úr leikjum Keflavíkur í sumar, liðið í vörn.
Fimmtudagur 5. júlí 2018 kl. 08:57

Keflvíkingar ekki að kasta inn handklæðinu

- Langtímaverkefni að byggja upp framtíðarlið, segir Sigurður Garðarsson, formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur

Keflvíkingar eru ekki að kasta handklæðinu og gefast upp og ekki hefur komið til tals að reka þjálfarann að sögn Sigurðar Garðarssonar, formanns Knattspyrnudeildar Keflavíkur í viðtali við vefsíðuna fotbolti.net. Liðið er lang neðst í Pepsi-deildinni og hefur ekki unnið leik og er aðeins með 3 stig.

Sigurður segir í viðtalinu að liðið hafi orðið fyrir skakkaföllum og meiðsl sett strik í reikninginn og það hafi komið niður á liðinu sem er ekki með stóran hóp leikmanna. Þá sé ljóst að liðið hafi ekki náð að sýna sitt rétt andlit í Pepsi-deildinni en stefna stjórnarinnar sé að horfa til framtíðar sem sé að búa til sterkt lið með langtímahugsun sem byggi á því að ala upp leikmenn.

„Á sama tíma eru allir þessir leikmenn að koma upp úr Inkasso-deildinni þar sem okkur gekk bærilega. En munurinn þarna á milli virðist bara vera talsvert mikill. Við eigum mögulega enn eftir að bæta okkur til að ná upp fullum styrkleika til að geta átt við liðin í Pepsi-deildinni.“

„Það er stefna þessarar stjórnar að líta á þetta verkefni okkar á þann hátt að búa til sigurstranglegt lið með langtímahugsun sem byggir á að ala upp leikmenn. Við erum góðir í því en ekki eins góðir í fjáröflun og mörg önnur félög. Við þurfum þess vegna að treysta á uppeldisstarfið okkar og það erum við að gera með því að gefa mörgum ungum leikmönnum traust í stór verkefni innan liðsins. Við erum að treysta á að okkar leikmannahópur muni ná að skila þeim styrkleika sem þarf,“ segir Sigurður Garðarsson.

Viðtalið í heild á fotbolti.net

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigurður til hægri en með honum á myndinni er Gunnar Gunnarsson formaður Knattspyrnudeildar Grindavíkur en þeim gulu hefur gengið vel í sumar og eru í toppbaráttunni, ólíkt bítlabæjarliðinu.