Keflvíkingar einir á toppnum eftir sigur á Val
Valsmenn tóku á móti Keflvíkingum í 9. umferð Pepsi-deildar karla í dag. Keflvíkingar sigruðu leikinn örugglega, 0:2, og sitja því einir á toppi deildarinnar með 18 stig.
Keflvíkingar mættu ákveðnir til leiks og sóttu stíft fyrstu mínútur leiksins. Þeir áttu mörg góð færi og voru oft á tíðum óheppnir að skora ekki. En þrátt fyrir stórsókn Keflavíkur í fyrri hálfleik var staðan markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Eftir að um sex mínútur voru liðnar af síðari hálfleik tókst Keflvíkingum loksins að koma boltanum í net heimamanna. Það gerði Guðjón Árni Antoníusson eftir að hann hafði sólað upp alla vörn Valsmanna, frábær tilþrif hjá Guðjóni. Það var svo Brynjar Örn Guðmundsson sem innsiglaði sigur Keflavíkur með marki á 83. mínútu en hann kom inn af bekknum í upphafi seinni hálfleiks. Hólmar Örn Rúnarsson var tvívegis nálægt því að bæta við þriðja markinu á lokamínútum en inn vildi boltinn ekki og lokatölur því 0:2 og Keflvíkingar komnir í góða stöðu á toppi deildarinnar.
Næsti leikur Keflavíkur er gegn FH á sunnudaginn og verður það fyrsti leikur Keflvíkinga á Sparisjóðsvellinum í sumar en hingað til hafa þeir leikið á heimavelli Njarðvíkinga. Leikurinn hefst klukkan 19:15.
VF-mynd / Sölvi Logason - Keflvíkingar fagna marki í leik gegn Fram á dögunum.