Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðjudagur 30. maí 2000 kl. 08:00

Keflvíkingar einir á toppnum

Nágrannaliðin Keflavík og Grindavík skildu jöfn, 2-2, í síðasta leik þriðju umferðar Landssímadeildarinnar í kvöld, en leikurinn fór fram í Keflavík. Leikurinn var mjög kaflaskiptur, en Keflavík hafði yfirhöndina í fyrri hálfleik og meiri hluta þess síðari, meðan Grindvíkingar vörðust og áttu fáar og bitlausar sóknir.Um miðjan síðari hálfleik snerist dæmið hins vegar við þegar Grindvíkingar sóttu án afláts að marki Keflvíkinga. Jafnteflið nægði þó Keflvíkingum til að komast einir í efsta sæti deildarinnar með 7 stig, en næstir þeim koma KR og ÍA með 6 stig hvort. Fyrsta mark leiksins kom á hinni margumtöluðu markamínútu, 43. Þegar brotið var á Zoran Ljubicic, inni í vítateig Grindvíkinga og Guðmundur Steinarsson skoraði örugglega úr vítaspyrnu í kjölfarið. Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleik, en þegar á þriðju mínútu þess síðari bætti Guðmundur við öðru marki sínu og Keflvíkinga í leiknum eftir mistök hjá Alberti Sævarssyni markverði Grindvíkinga. Albert átti slaka sendingu frá marki Grindvíkinga og beint fyrir fætur Guðmundar, sem vippaði boltanum yfir Albert og í mark Grindvíkinga. Guðmundur er þar með búinn að skora fimm mörk í Landssímadeildinni í sumar og er markahæstur sem stendur. Eftir síðara markið var eins og allur vindur væri úr heimamönnum, sem pökkuðu í vörn, á meðan gestirnir úr Grindavík sóttu í sig veðrið. Grindvíkingar náðu að minnka muninn þegar sex mínútur voru eftir af leiknum. Þá var að verki Ólafur Örn Bjarnason, sem skoraði með skalla eftir hornspyrnu að marki Keflvíkinga. Á lokasekúndum leiksins náðu Grindvíkingar svo að jafna metin eftir að þeim var dæmd aukaspyrna rétt utan við vítateig Keflvíkinga. Zoran Djuric tók spyrnuna og negldi boltanum í vinkilinn fjær og skoraði þar með glæsilegt jöfnunarmark fyrir Grindvíkinga. Guðmundur Steinarsson var bestur í liði Keflvíkinga í kvöld, en Zoran Djuric lék best í liði gestanna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024