Keflvíkingar eiga toppsætið einir
Unnu góðan sigur í Grindavík 94-101
Keflvíkingar sýndu sannarlega styrk sinn með því að leggja Grindvíkinga að velli í Mustad höllinni í Grindavík í kvöld. Því hafa Keflvíkingar unnið alla sex leiki sína í Domino's deild karla í körfubolta til þessa og tróna einir á toppnum.
Lokatölur leiksins voru 94-101 fyrir gestina frá Keflavík. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Keflvíkingar mættu grimmir til leiks í síðari hálfleik og náðu mest 14 stiga forystu í þriðja leikhluta. Þá virtist sem allur vindur væri úr Grindvíkingum en svo var nú aldeilis ekki. Þeir náðu með hörku að jafna og komast yfir og allt stefndi í alvöru rimmu. Keflvíkingar sýndu hins vegar hvers vegna þeir dvelja á toppi deildarinnar og sýndu klærnar í fjórða leikhluta. Þeir voru ákveðnari í öllum sínum aðgerðum og settu niður nokkur stór skot sem skiptu sköpum. Grindvíkingar börðust fram á lokasekúndu en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Leikgleðin lekur af Keflvíkingum um þessar mundir og þeir berjast sem ljón um allan völl og spila sem vel smurð vél. Earl Clark dregur vagninn í sókninni en hann skoraði 30 stig í kvöld. Aðrir leikmenn eins og Guðmundur Jónsson, Reggie Dupree og Valur Orri Valsson voru að leika frábærlega í þessum leik og hafa gert á öllu tímabilinu ef út í það er farið. Þetta Keflavíkurlið er til alls líklegt ef það heldur uppteknum hætti.
Hjá Grindvíkingum voru þeir Jón Axel Guðmundsson, Jóhann Árni Ólafsson, Þorleifur Ólafsson og Eric Wise allir drjúgir, en Jón Axel daðraði við þrennu enn einu sinni.