Keflvíkingar efstir
Keflavík vann glæsilegan sigur á Íslands- og bikarmeisturum KR, 3-2 á Laugardalsvelli í kvöld. Fyrri hálfleikur var heldur rólegur, en KR-ingar sóttu grimmt að marki Keflvíkinga, meðan gestirnir pökkuðu í vörn. Staðan í hálfleik var 1-0, fyrir KR eftir að Guðmundur Benediktsson kom heimamönnum yfir á 24. Mínútu, en misnotaði svo tækifæri til að bæta við öðru marki KR-inga, er hann brenndi af vítaspyrnu. Í síðari hálfleik hrukku Keflvíkingar svo í gang eftir að Guðmundur Steinarsson og Zoran Ljubicic komu inn á. Á 63. Mínútu náðu Keflvíkingar að jafna metin, þegar Kristján Brooks sendi boltann fyrir markið á Guðmkund Steinarsson, sem skoraði örugglega fram hjá Kristjáni Finnbogasyni í marki KR-inga. Eftir markið tvíefldust Keflvíkingar og skoruðu tvö mörk í röð. Kristján Brooks skoraði annars vegar eftir sendingu frá Zoran Ljubicic og hins vegar Guðmundur Steinarsson, sem skoraði úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á honum innan vítateigs KR-inga. Guðmundur er þar með orðinn markahæstur leikmanna Landssímadeildarinnar í sumar. Það sem eftir lifði leiks lágu KR-ingar á vörn Keflvíkinga og reyndu að klóra í bakkann og árangurinn af því varð mark frá Andra Sigþórssyni á 89. mínútu, eftir að hafa fengið stungusendingu inn fyrir vörn Keflvíkinga. Besti maður vallarins var án efa Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Keflvíkinga, sem varði hvert skotið af öðru frá fyrrum félögum sínum í KR. Annars var liðið í heild mjög gott og vann vel saman í leiknum.