Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 26. nóvember 2001 kl. 09:36

„Keflvíkingar efnilegir og hafa sigurvilja“

, segir Sigursteinn Snorrason, Taekwondo þjálfari

Úr kjallara sundmiðstöðvarinnar í Keflavík heyrast hróp á ókennilegu tungumáli. Inni í salnum er hópur krakka að æfa íþrótt sem kallast Taekwondo. Rjóð í kinnum hrópa þau orð á máli sem blaðamaður skilur ekki, sparka út í loftið og gera flóknar fléttur með hnefunum. Sigursteinn Snorrason sér um að þjálfa krakkana og það er furðulegt að sjá virðinguna sem þau sýna þjálfara sínum. Að loknum tímanum hneigja þau sig fyrir þjálfara sínum og inn streyma eldri strákar. Allir stoppa í dyragættinni áður en gengið er inn í salinnn, hneygja sig og þjálfarnum heilsað með virktum. Það er ótrúlegt að maður sé staddur á Íslandi þar sem agi er ekki það fyrsta sem kemur til hugar þegar hugsað er til Íslendinga.

„Ég byrjaði sjálfur að þjálfa 1994 en byrjaði hér í Keflavík í október í fyrra“, segir Sigursteinn sem gaf sér tíma til að segja blaðamanni frá Taekwondo deildinni í Keflavík. Deildin er eina sinna tegundar á Suðurnesjum og raunar eina á landinu fyrir utan deildirnar í Reykjavík og á Akureyri. Íþróttin nýtur vaxandi vinsælda hérlendis og má eiginlega segja að í Keflavík hafi orðið sprenginn á mjög stuttum tíma. Tvær gerðir íþróttinnar eru kenndar en annar vegar er hefðbundið Taekwondo og síðan íþróttin sem keppt er í á Olympíuleikum. „Ég reyni að kenna bæði til að halda réttu jafnvægi. Það er mikill agi í þessari íþrótt en það er ekki verið að kenna þeim að berjast nema maður treysti þeim og þau geri sér grein fyrir því að þau eiga að hlíða“, segir Sigursteinn en vel hefur gengið að kenna börnum aga og foreldrar hafa séð mikinn mun á börnum sínum, þau koma heim með betri einkunnir og sýna mun betri mannasiði.

Í yngri flokknum í Keflavík eru stelpur jafnmargar ef ekki fleiri en strákarnir en í eldri flokknum eru einungis strákar. Þetta er þá ekki raunin á landsvísu en þar eru 35-40% iðkenda konur. Fullorðnir hafa einnig gott af þessu og eru dæmi um að heilu fjölskyldurnar hafi tekið ástfóstri við Taekwondo íþróttina. „Fólk er endurnært eftir æfingar en á hærri stigum íþróttarinnar er stunduð íhugun og hugleiðsla.“ Enn sem komið er hefur ekki reynst fótur fyrir stofnun eldri flokks í Keflavík en fyrir yngri krakka og unglinga er boðið upp á prufutíma en æfingar fara fram í Sundmiðstöðinni þriðjudaga, fimmtudaga og föstudaga kl. 18 fyrir börn og kl. 19 fyrir unglinga. Annars er kostnaður við íþróttina ekki mikill, æfingagjöld u.þ.b. kr. 2000 á mánuði. Deildin í Keflavík hefur líka verið að standa sig mjög vel miðað við hvað hún er ung. „Fyrsta mótið sem við fórum á var eftir nokkra mánaða þjálfun og það var Íslandsmót. Við náðum 3. sæti auk þess sem einn aðili varð Íslandsmeistari í byrjendaflokki. Síðan höfum við verið að fá verðlaun af minni mótum. Þrír úr hópnum fóru á Irish Open og náðu m.a. silfri og brons“, segir Sigursteinn og bætir við: „Þessi íþrótt virðist henta Keflvíkingum vel, þeir eru 100% einbeittir og vilja vinna. Fullir sigurvilja og baráttuvilja.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024